Geimgeislun sem flugfreyjur- og þjónar verða fyrir í háloftunum

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar erlendis á heilsu og líðan flugliða en eftirtaldir umhverfisþættir eru fyrst og fremst taldir hafa áhrif á þetta tvennt hjá flugáhöfnum og farþegum. Geimgeislun (cosmic rays) sem áhöfnin verður fyrir á flugi

• Rafsegulbylgjur frá stjórntækjum í flugstjórnarklefa sem flugmenn verða fyrir.

• Útblástur frá hreyflum sem berst inn í flugvélarrými sem bæði áhöfn og farþegar anda að sér.

• Gæði andrúmslofts um borð (rakastig og mengun).

• Óreglulegur svefn og síþreyta áhafna.

Í þessum pistil er sérstaklega fjallað um það geislaálag sem flugliðar verða fyrir og afleiðingar þess á heilsu þeirra.

Hvað eru geimgeislar?

Geimgeislarnir eru skaðlegir, jónandi geislar (ionising rays) sem þeytast um geiminn á ljóshraða. Sumir koma frá sólinni, aðrir utan úr óravíddum geimsins. Lofthjúpur og segulsvið jarðar veitir sterka vörn gegn þessum geislum, annars væri allt líf á jörðinni löngu útdautt. Flugvélar ferðast hátt uppi í lofthjúpnum þar sem minni vörn er fyrir þessum vágestum. Flugvélarskrokkurinn veitir litla vernd gegn sumum þessara geisla (sérstaklega gammageislum) og verða því bæði farþegar og flugáhafnir fyrir meiri geislun á flugi en væru þau á jörðu niðri. Segulsvið jarðar beinir, sem fyrr segir, geislum frá jörðinni og eru áhrif segulsviðsins mest við miðbaug. Þar mælist geislunin minnst en mest við norður- og suðurheimskautið.

Hægt er að mæla geislunarálag. Mælieiningin er kölluð „Sievert“ eftir sænska eðlisfræðingnum sem skilgreindi hana og á hún við uppsafnaðan skaðlegan geislaskammt á líkamann á tilteknum tíma. Til þess að skilja hugtakið betur má líkja því við magn regnvatns sem safnast í tunnu á einhverjum ákveðnum tíma. Auk þess tekur mælieiningin Sievert tillit til mismunandi skaðsemi ólíkra geislategunda og er því beinlínis mælikvarði á skaðsemi geislunarinnar. Við yfirborð jarðar mælist styrkur geislunar mjög lágur en eykst því hærra sem farið er upp í lofthjúpinn. Aukningin verður svo mikil að geislamagn inni í flugvél, sem flýgur í 39.000 feta hæð, er 64 sinnum meiri en við yfirborð jarðar. Uppsafnaður geislaskammtur er því meiri því lengur sem dvalist er í háloftunum og því hærra sem farið er og loks skiptir máli á hvaða breiddargráðu ferðast er þar sem geislunin er meiri nær pólunum.

Flugáhafnir eru geislastarfsmenn

Samkvæmt íslenskum lögum flokkast íslenskar geislastarfsmennflugáhafnir sem geislastarfsmenn en slíkan titil fá starfsstéttir sem vinna við jónandi geislun sem mælist um eða yfir 1 milliSievert (mSv) á ári. Hópgeislaálag fyrir þennan hóp er mjög svipað á milli ára en meðalgeislaálagið fer lækkandi með upplýsingum um fleiri áhafnarmeðlimi. Meðalgeislaálag íslenskra flugáhafna árið 2013 var 1,91 mSv, árið 2014 var það 1,89 mSv og árið 2015 var það 1,88 mSv. Samkvæmt upplýsingum frá Geislavörnum Ríkisins ( 2017) hafa allir flugliðar verið með geislaálag undir 5 mSv. Meðalgeislaálag íslenskra flugáhafna er mjög sambærilegt við meðalgeislaálag t.d danskra flugáhafna en það mældist þar í landi árið 2009 1,8 mSv og árið 2010 1,9 mSv. Vel má spyrja hvort þetta heildargeislaálag gefi rétta mynd af því geislaálagi sem flugáhafnir verða fyrir þar sem starfsmenn eru í misjöfnu starfshlutfalli en ekki er tekið tillit til þess þegar meðalgeislaálag flugáhafnameðlima er reiknað út. Til samanburðar má geta þess að meðalgeislamengun, sem starfsmenn röntgendeilda sjúkrahúsa verða fyrir, mældist árið 2009 2,13 mSv á ári og meðalgeislaálag á starfsmenn kjarnorkuvera er 1,6 mSv á ári (Baris,2006). Þetta þýðir að eftir því sem best er vitað vera engar aðrar starfsstéttir verða fyrir jafnmikilli geislun og flugáhafnir.

Mælingar og eftirlit

Evrópusambandið setti lög um geislaálag árið 2000 og taka íslensk lagaákvæði mið af þeim lögum. Árið 2008 hóf Icelandair að mæla geislaálag á flugáhöfnum en það var lengi vel eina flugfélagið hér á landi sem mældi geislaálag á flugáhöfnum. Árið 2010 var byrjað að mæla geislaálag á flugáhöfnum Atlanta. Evrópusambandið gerir ekki bara kröfur um persónulegar mælingar flugáhafna heldur fer það einnig fram á að flugáhafnir fái viðeigandi fræðslu um áhættu geimgeislunar. Sérstaklega skal hugað að barnshafandi flugliðum. Samkvæmt geislavörnum ríkisins eiga flugrekendur að skipuleggja vinnu barnshafandi flugliða með ástand þeirra í huga. Því er mjög mikilvægt að barnshafandi flugliðar tilkynni sem fyrst um ástand sitt svo hægt sé að vernda þá gegn of miklu geisla- og flugálagi. Flestir flugliðar tilkynna flugrekanda ástand sitt á þriðja mánuði meðgöngu en vert að velta því fyrir sér hvort flugrekendur reikni með frá byrjun meðgöngu geislaálagið sem fóstrið hefur orðið fyrir á fyrstu vikum meðgöngu, áður en flugliðinn tilkynnir ástand sitt. Geislaálag á fóstrið má ekki fara yfir sem svarar til 1 mSv á meðgöngu, frá því flugliði verður barnshafandi og þar til hann fer í barneignarfrí. Stundum vill það gleymast að fóstrið er ekki geislastarfsmaður þó móðir þess sé það. Skaðleg áhrif geislunar á fóstrið eru mest á fyrstu þremur mánuðum þungunar.

Geislavarnir ríkisins og Flugmálastjórn vinna sameiginlega að eftirliti flugáhafna. Það er gert með sérstöku reiknilíkani og hugbúnaði sem áætlar geislaálagið á hvern og einn flugáhafnarmeðlim. Mælingarnar á geislaálagi flugliða miðaðist við eftirfarandi atriði: • Flugleiðir/breiddargráða flugsins, því norðar sem flogið er því meiri geimgeislun.

• Flughæð, því hærra sem flogið er því meiri geimgeislun.

• Flugtíma, því lengur sem flogið er því meiri geimgeislun verður flugáhöfnin fyrir.

• Aðra þætti, svo sem sólgos en við þau eykst geimgeislun.

Öll þessi atriði skipta máli þegar horft er til geislamagns sem hver og einn flugliði verður fyrir.

Hvernig sér flugliðinn það geislamagn sem hann verður fyrir í flugi yfir árið?

Á síðunni Mywork getur hver og einn flugáhafnameðlimur séð það geislamagn sem hann hefur orðið fyrir í flugi síðastliðið ár. Þetta er einföld aðgerð: Farið er inn á mínar síður en þar er lína sem heitir Quick links. Undir henni er Geislamælingar-Globalog og undir þeim flipa lengt til hægri er fyrirsögnin: Cosmic Radiation 12 months. Undir þeirri línu neðst til hægri er heildargeislamagnstalan sem viðkomandi flugliði hefur fengið í flugi til dagsins í dag. Sjálf er ég í 67% starfi og mælist, þegar þetta er ritað, með 2,9 mSv á ári. Ég er sem sagt aðeins yfir meðalgeislaálagi flugliða Icelandair. Miðað er við að hámarksgeislun, sem hver og einn áhafnameðlimur verður fyrir, fari ekki yfir 6 mSv á ári. Mér vitanlega hefur engin orðið fyrir svo mikilli geimgeislun.

Geimgeislun og heilsa flugáhafna

Hættulegustu áhrif geimgeislunar á líkamann eru þær breytingar sem geislunin getur haft á erfðaefni og litninga hinna ýmsu fruma líkamans. Afleiðingar skemmda á litningunum geta leitt til dauða eða skemmda á frumum. Frumuskemmdir af völdum geimgeisla (jónandi geisla) geta leitt til óeðlilegrar frumuskiptingar sem síðar getur orðið að krabbameini.

Rannsóknir hafa sýnt fleiri áhrif geimgeislunar á líkamann, svo sem fósturskaða og erfðagalla, en þau áhrif verða ekki rakin hér enda hafa þau lítil áhrif þegar á heildina er litið. Niðurstöður íslenskrar rannsóknar, sem gerð var fyrir 11 árum, þar sem skoðuð voru tengsl brjóstakrabbameins og starfsumhverfis flugliða, leiddi í ljós að hjá íslenskum flugáhöfnum greindust fleiri tilfelli brjósta- og húðkrabbameins en hjá öðrum starfsstéttum.

Niðurstöður erlendra rannsókna sýna sömu niðurstöður, ásamt aukinni tíðni blöðruhálskirtilskrabbameins og hvítblæðis. Ákjósanlegt væri að fleiri rannsóknir væru gerðar á geimgeislun og áhrifum hennar á íslenskar flugáhafnir. Hér á norðurhveli jarðar eru áhrif segulssviðsins minni og því meiri geislaáhrif en ella. Íslensku flugfélögin fljúga norðar en önnur flugfélög og því er íslenskum flugáhöfnum væntanlega hættara við geimgeislun.

Öllum hlýtur að vera ljóst hve mikilvægt er að fræða starfsfólk um forvarnir, sem hægt er að beita til þess að koma í veg fyrir þá sjúkdóma sem geimgeislun getur valdið, og vernda þannig og efla heilbrigði flugáhafna.


Hvers vegna vita ekki allir yfirmenn fyrirtækja þessi einföldu atriði?

Starfsánægja og starfsþróun Starfsánægja er eitt af því sem flestir yfirmenn fyrirtækja vilja að sé almennt ríkjandi hjá starfsmönnum sínum því aukin starfsánægja helst í hendur við aukin afköst starfsmanna ekki síður hollustu starfsmanna við fyrirtækið.

Í hverju felst starfsánægja? Starfsánægja er tilfinningaleg viðbrögð gagnvart því starfi sem starfsmaðurinn gegnir, en þau viðbrögð ráðast af samanburði á því sem hann fær út úr starfinu og því sem hann telur sig eiga skilið eða eiga von á úr starfinu.                En hvað er það sem gerir starfsmanninn ánægðan í vinnu? Það má skipta starfsánægjuþáttum í tvennt eftir því hvort áhuginn beinist að almennri starfsánægju (global sastisfaction) eða ánægju með sértæka þættir starfsins (facet satisfaction). Sértækir þættir starfsins sem stuðla að starfsánægju eru vinnan sjálf, þ.e.a.s. að hún sé áhugaverð og spennandi og hvort möguleikar séu á stöðuhækkun og starfsþróun. Vert er að staldra hér við og huga að því hvað felst í starfsþróun. Starfsþróun er samfellt ferli sem starfsmaðurinn gengur í gegnum í starfi sínu. Starfsþróun eflir hæfni og þekkingu starfsmannsins til faglegrar þróunar og eykur árangur og ánægju hans í starfi.Til þess að eðlileg starfsþróun geti átt sér stað þurfa skilyrðin og ferlið að vera þekkt hjá öllum starfsmönnum, þannig að þeir geti meðvitað aðlagað hæfni sína. Í flestum fyrirtækjum leiðir farsæl starfsþróun til stöðuhækkunar eða aukinni ábyrgð eða verkefnum en aukin ábyrgð í starfi eykur eins og áður hefur komið fram starfsánægju flestra. Það er ákaflega mikilvægt að vandað sé til verka þegar stöðuhækkanir eiga sér stað innan fyrirtækja. Ef ferlið við stöðuhækkun er ógegnsætt og menn skilja ekki hvað liggur að baki því hver valinn er til ábyrgðar eða stjórnunarstarfa, geta fyrirtæki setið uppi með hóp óánægðra starfsmanna sem sjá ekki hvaða leiðir eru færar til þess að ná framþróun í starfi.

Áhrifaþættir starfsánægju geta falist í störfum sem eru fjölbreytt, nýta hæfileika starfsmannsins og gefa honum tækifæri til að bera ábyrgð og vinna sjálfstætt. Kyn, menntun, aldur og almenn viðhorf til lífsins geta haft áhrif á það hversu ánægður einstaklingurinn er í starfi og hversu mikið hann getur gefið af sér í starfið. Lífsviðhorf starfsmannsins, jákvæðni eða neikvæðni, skiptir máli, en þessir þættir eru taldir skapa þann grunntón sem einkennir viðhorf einstaklingsins meðal annars til vinnu.                                                                                 Það ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart að neikvæðir einstaklingar eru líklegri til að vera óánægðari í starfi. Margar rannsóknir sýna að konur upplifa meiri auðgun milli vinnu og fjölskyldulífs en karlar. Þeir upplifa meiri togstreitu í starfi. Aukin menntun starfsmannsins eykur starfsánægju og öruggi hans í starfi, þetta eru gleðifréttir fyrir þá sem eru komnir yfir miðjan aldur því að með auknum aldri eykst almennt starfsánægja einstaklingsins en aukin ánægja á reyndar við fleiri þætti í lífi miðaldra einstaklings.

Togsteita milli atvinnu og einkalífs getur haft áhrif á starfsánægju og valdið árekstri og streitu í einkalífinu þar sem hvort um sig krefst tíma. Ýmsar kenningar eru til um tengsl milli starfsánægju og ánægju með aðra þætti lífsins. Innan þessara smitunarkenninga er talið að orsakatengslin séu gagnvirk, þannig að lífsánægja orsaki starfánægju, ekki síður en starfsánægja orsakar lífsánægju.

Eftir þessu að dæma hlýtur það að vera akkur hvers fyrirtækis að hafa starfsmenn sína ánægða í starfi og eðlilegframþróun eigi sér stað.


Rannsókn á líðan og úthaldi flugfreyja/ þjóna á næturflugum

Inngangur Í ágúst 2015 var gerð rannsókn á undirbúningi, úthaldi og líðan flugfreyja og -þjóna hjá Icelandair í næturflugi . Um var að ræða næturferðir til Evrópu en brottför þeirra er kringum eitt eftir miðnætti og lending í Keflavík á milli klukkan níu og tíu næsta dag. Næturflugferðir frá Bandaríkjunum voru undanskildar þar sem um einn flugáfanga er að ræða.

Fyrir nokkrum misserum hófust næturflugferðir til Evrópu hjá Icelandair. Til þessa hafa þær einungis verið yfir sumartímann en í ljósi aukinna umsvifa má búast við að næturflug fari fram allt árið. Mörgum einstaklingum hefur reynist erfitt að vaka svo lengi fram eftir morgni og hafa flugfreyjur og -þjónar kvartað undan mikilli þreytu í næturflugi og í kjölfar þess. Því þótti ástæða til þess að rannsaka málefnið og skoða hvort þessum næturferðum væri jafn skipt á milli flugfreyja og -þjóna. Í þessari samantekt verður farið yfir helstu niðurstöður því þær geta veitt flugfreyjum og -þjónum og ekki síður atvinnurekanda mikilvægar upplýsingar um líðan og úthald flugfreyja og -þjóna í næturflugferðum.

Aðferð

Á spurningalistanum voru 35 spurningar þar sem markmiðið var að skoða hvíld flugfreyja og -þjóna fyrir og eftir næturflug, árvekni þeirra, líðan, úthald og viðhorf til næturflugferða. Listinn var forprófaður fjórum sinnum og fékk rannsakandi fjölmargar ábendingar sem tekið var tillit til. Stuðst var við forritið Survey Monkey og slóðin fyrir spurningalistann var sett inn á lokaða síðu flugfreyju og -þjóna á samskiptamiðlinum „Facebook“. Þeir sem ekki voru á „Facebook“ en höfðu áhuga á þátttöku gátu fengið slóðina senda til sín í netpósti. Alls svöruðu 310 manns sem eru um 41% af laus- og fastráðnum flugfreyjum og -þjónum hjá Icelandair í ágúst 2015. Þar af voru 288 konur (93%) og 20 karlar (7%). Aldur þátttakenda var frá 21 árs til 66 ára. Meirihluti þátttakenda var í fullu starfi (68%), þar á eftir var tæpur fjórðungur í 75% starfi, 22 voru í 67% starfi og fjórir einstaklingar voru í 50% starfi. Meðalaldur þátttakenda var 40,1 ár og voru flestir giftir eða í sambúð. Helmingur þátttakenda var með börn á grunnskólaaldri, þar af voru 30% með börn undir fimm ára aldri

Mynd 1.

Myndin sýnir að meirihluti flugfreyja og -þjóna eru í fullu starfi. Niðurstöður Tveir þriðju flugfreyja og -þjóna sváfu 7-8 klukkustundir nóttina fyrir nætuflugið og er það heldur styttra en flestir sofa að jafnaði þegar þeir eiga frídag. 17% töldu sig vera úthvílda eftir nætursvefninn, tæpur helmingur taldi sig þokkalega úthvíldan en ríflega þriðjungur (35%) taldi sig ekki hafa fengið nógu góðan svefn, sofa illa og vera þreyttan.

Mynd 2.

Myndin sýnir hversu hvíld/ur þátttakandinn var í kjölfar nætursvefns sólarhring fyrir næturflug. Hjá fjórðungi þátttakenda var síðasta flug fyrir næturflug deginum áður og hjá þriðjungi daginn þar áður. Fyrir næturflugið fór helmingur þátttakenda síðast í morgunflug, 17% voru í öðru næturflugi og um 15% voru í seinnipartsflugi til Ameríku. Meirihluti flugfreyja og -þjóna (68%) lagði sig eða hvíldist einhvern tímann yfir daginn fyrir næturflugið og var hvíldartíminn allt frá 20 mínútum til fjögurra klukkustunda en að meðaltali um tvær klukkustundir. Gæði þessa svefns eða hvíldar voru mismikil og ekki náðu allir að sofna þrátt fyrir að leggjast upp í rúm. Þeir sem náðu svefni eða slökun töldu sig betur hvílda fyrir flugið en þeir sem náðu engri hvíld. Fleiri barnlausir þátttakendur sofnuðu eða hvíldust fyrir flugið heldur en þeir sem áttu börn.

Við upphaf vaktar leið rúmlega helmingi (57%) flugfreyja og -þjóna vel en mörgum fannst þeir þó geta verið hressari. Um þriðjungi leið þokkalega en var svolítið syfjaður og um 12% leið ekki vel. Um þrír fjórðu (74%) voru hressir eða frekar hressir á útleið en það snerist við á heimleið þegar sama hlutfall (75%) var þreytt eða illa fyrirkallað sökum þreytu. Meirihluti (75%) neytti koffindrykkja á meðan á flugi stóð. Árvekni flugfreyja og -þjóna hélst í hendur við líðan þeirra. Tæplega tveir þriðju (64%) töldu árvekni sína góða á útleið en á heimleið snerist þetta við þar sem meirihlutinn (75%) taldi árvekni sína ekki næga eða litla.                                                     Um fjórðungur flugfreyja og -þjóna (24%) sagðist hafa getað sofnað eða dottað ef tækifæri hefði gefist. Í opnum svörum sagðist einn þátttakandinn hafa sofnað margsinnis standandi á fluginu þrátt fyrir tveggja tíma svefn deginum áður og þótti erfiðast að halda sér vakandi í lendingu í Keflavík þar sem áhafnarsæti snéri að farþegum.

Þegar vakt lauk hafði fjórðungur þátttakenda vakað 12-14 klukkustundir, fjórðungur í 15-20 klukkustundir og 50% höfðu verið vakandi 20-28 klukkustundir. Langflestir þátttakenda (87%) voru úrvinda af þreytu eftir vaktina og tæplega helmingur allra (45%) sofnuðu í áhafnarrútunni til Reykjavíkur.

Mynd 3.

Myndin sýnir líðan þátttakenda í flugrútu að loknu næturflugi. Flestir sofnuðu fljótlega eftir heimkomuna og svaf meirihlutinn (82%) í 3-5 klukkustundir. 64% voru enn þreyttir eða mjög þreyttir þegar þeir vöknuðu og fjórðungur (24%) var enn úrvinda. Meirihlutinn (82%) taldi sig þurfa 2-3 daga til að jafna sig eftir næturflugið og því eldri sem þátttakendur voru því lengri tíma töldu þeir sig þurfa.

Mynd 4.

Myndin sýnir líðan í kjölfar (dag) svefns eftir næturflug. Meira en helmingur (56%) átti hins vegar flug daginn eftir og fóru flestir í seinnipartsflug til Ameríku. Meirihluti þátttakenda (60%) taldi næturflug vera mun erfiðara en morgunflug og svipað hlutfall (56%) kveið fyrir því að fara í slíkar ferðir. Ekki var um marktækan mun á þoli og úthaldi að ræða eftir því hvort þátttakandinn var af A-gerð (morguntýpa) eða B-gerð (kvöldtýpa).

Þegar spurt var um fjölda næturflugferða í vor og sumar kom í ljós að þeir sem voru í hálfu starfi fóru í hlutfallslega flestar ferðirnar. Lítill munur var á fjölda ferða þegar miðað var við starfsprósentu. Sjá töflu tvö.

 

Umræða

Í þessu rannsókn var skoðað hvernig líðan, úthald og viðhorf flugfreyja og -þjóna er í næturflugferðum . Fjöldi rannsókna hefur verið gerður bæði hérlendis og erlendis á áhrifum nætur- og vaktavinnu hinar ýmsu starfsstéttir en fáar hafa verið gerðar á flugfreyjum og -þjónum. Ljóst er að næturflug, örar breytingar á flugvöktum fyrir og eftir næturflug og lágmarkshvíld í kjölfar næturflugferða hefur áhrif á þol og úthald stéttarinnar. Margir áhrifaþættir geta átt þar hlut að máli, svo sem aldur einstaklingsins, kyn, heilsa, heimislisaðstæður, vinnuhlutfall, streita og viðhorf til starfsins. Eins og sjá má í niðurstöðum telja þátttakendur næturferðirnar erfiðar og flestir töldu sig þurfa tvo til þrjá sólarhringa að jafna sig. Það er því umhugsunarvert að meira en helmingur átti flug strax daginn eftir og flestir til Bandaríkjanna en það raskar enn frekar líkamsklukkunni. Gera má ráð fyrir að meirihlutinn hafi farið þreyttur í það flug.

Næturferðirnar eru hins vegar það erfiðar vegna truflunar á líkamsklukkunni að það dregur verulega úr árvekni eftir því sem líður á nóttina. Sláandi munur er á árvekni á útleið og heimleið enda dæmi um að fólk hafi sofnað standandi þegar líður á flugvakt og átt í mestu erfileikum að halda sér vakandi í lendingu eins og fram kom hér á undan.

Mynd 5.

Myndin sýnir mikinn mun á líðan annarsvegar á leið til áfangastaðar og hinsvegar á leið til Keflavíkur. Þó að flugfreyjur og -þjónar leggi sig fyrir nætuflugið er visst áhyggjuefni að sjá hve vökustundirnar eru samt margar hjá þátttakendum þegar flugvakt er lokið. Helmingur hafði verið vakandi í 20-28 klukkustundir í lok flugvaktar. Helst það í hendur við mat þátttakenda á árvekni sinni síðustu klukkustund fyrir lendingu í Keflavík því einungis fjórðungur þátttakenda taldi sig mjög eða frekar ávökulan. Þetta ber að líta alvarlegum augum því eftir svo langa vöku verður erfiðara fyrir einstaklinginn að bregðast hratt við óvæntum áreitum enda skerðir líkamleg þreyta einbeitingu og viðbrögð.

Mynd 6.

Myndin sýnir að mikill munur er á áverkni annarsvegar klukkustund fyrir lendingu erlendis og hinsvegar klukkustund fyrir lendingu í Keflavík. Niðurstöður rannsókna, sem gerðar hafa verið á vaktavinnufólki, sýna að konur eiga almennt verra með að þola næturvinnu og lendi frekar í svefnvandamálum og síþreytu en karlmenn. Hormónasveiflur geta einnig haft áhrif á þol kvenna til vakta- og næturvinnu, svo sem kringum blæðingar og á meðgöngu. Meirihluti þátttakanda í þessari rannsókn var konur enda um kvennastétt að ræða. Með hækkandi aldri hjá báðum kynjum verður næturvinna erfiðari, lengri tíma tekur fyrir eldri einstaklinga að jafna sig eftir truflun á dægurklukkunni og svefngæði verða með hækkandi aldri lakari. Tafla tvö sýnir sýnir að um marktækan mun var að ræða á aldri og árvekni þátttakenda, árveknin fór versnandi með hækkandi aldri.

Í ljósi breiðs aldurs meðal stéttarinnar er vert að skoða hvernig hægt er að koma til móts við ört stækkandi hóp „eldri flugfreyja og -þjóna“ hvað varðar val á flugferðum, uppröðun þeirra á flugskrá með tiliti til hvíldar. Um það bil einn fimmti þátttakenda í þessari rannsókn var yfir fimmtugu og elsti þátttakandinn var 66 ára. Þreyta meðal flugfreyja og -þjóna hefur ekki fengið nægilega athygli, hvorki meðal yfirmanna, flugyfirvalda né almennings. Leiða má líkur að því að almenningur átti sig ekki á þeirri miklu ábyrgð, sem stéttin ber um borð, fyrr en á reynir. Starf flugfreyja og -þjóna er fyrst og fremst öryggisstarf, þeir verða ávallt að vera hæfir til sinna verka.

Hvað er til ráða?

Mikilvægt er að uppröðun flugvakta rúlli í takt við líkamsklukkuna, byrji á morgunflugi, síðan kvöldflugi og endi á næturflugi. Mörgum finnst betra að fara í tvær næturflugferðir í röð eftir að röskun á líkamsklukkunni er hafin á annað borð. Vel mætti kanna hvað hentar flugfreyjum og þjónum og raða næturflugferðum í samræmi við óskir og hentugleika. Til eru margar tegundir vaktavinnuskráa sem eiga að koma í veg fyrir að starfsmenn verði útkeyrðir (nefndar „fatigue rosters“ á ensku). Vel mætti skoða hvort slíkar vinnuskrár gætu minnkað flugþreytu milli flugferða. Slíkar skrár munu krefjast meiri mannafla en áður og það gæti komið í veg fyrir að flugrekendur kjósi að nota slíkar þær. Mikilvægt er að flugfreyjur og -þjónar fái tækifæri til þess skipuleggja að einhverju leyti hvernig flugskrá þeirra er upp sett, þannig mætti fækka árekstrum við fjölskyldu- og félagslíf sem stöðugt koma fram eftir útkomu flugskrár. Hvíld eftir næturflug ætti að vera a.m.k.tveir sólarhringar eða hvíld í tvær fullar nætur. Samkvæmt niðurstöðum þessarar könnunar er það lágmarkstími fyrir flugfreyjur og -þjóna til þess að ná þeirri hvíld sem þeir telja sig þurfa. Morgunflug ætti því ekki að koma í kjölfar næturflugs þar sem næturhvíld næst ekki að fullu þegar mætt er til vinnu klukkan sex að morgni.

Fræðsla um hvíld, svefn, notkun skammvinnra svefnlyfja ætti að vera í boði fyrir þá sem þess þurfa. Margir eru á móti svefnlyfjum en í mörgum tilfellum geta skammvinn svefnlyf hjálpað flugfreyjum og þjónum til að hvílast og stuðlað þannig að því að þeir séu betur fallnir til þess að sinna störfum sínum. Þekking á áhrif vaktavinnu á líkamsklukkuna og hvernig best er að vinna á vaktaþreytu er vanmetinn þáttur. Slík fræðsla ætti ávallt að vera í höndum fagaðila sem geta ráðlagt af þekkingu og vitnað í niðurstöðum rannsókna sem hafa verið gerðar á málefninu.

Flestar flugfreyjur og -þjónar eru sammála um að visst álag fylgi starfinu, starfsmenn þurfa ávallt að sýna sínar bestu hliðar, sama hvernig þeim líður.

Mig langar til þess að vekja athygi á því að einstaklingur, sem hefur verið vakandi í meira en 20 klukkustundir, eins og helmingur flugfreyja og -þjóna hefur gert í lok næturflugs, getur verið lífshættulegur í bílstjórasætinu í umferðinni. Að sögn Bandarísku svefnsamtakanna getur 18 klukkustunda vaka verið samsvarandi því að vera með 0,8‰ áfengismagn í blóði. (http://healthysleep.med.harvard.edu/need-sleep/whats-in-it-for-you/judgment-safety)                                                                    Viðmiðunarmörk á áfengi í blóði hjá ökumanni á Íslandi eru 0,2‰. Oft þarf að mæla með áreiðanlegum hætti þreytustig til þess að bæði starfsmenn og ekki síður almenningur skilji alvarleika svefnskorts og þreytu eins og hér er lýst. Ég læt að lokum fylgja með lýsingu á ökuferð heim úr næturflugi sem einn þátttakandinn sendi með svörum sínum ... ég sofnaði undir stýri á leið heim og litlu mátti muna að illa færi. Vaknaði við það að ég var að sveigja inn á akgrein úr gagnstæðri átt..


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband