Líkamsklukkan og tíðarhringur flugfreyja

Röskun á líkamsklukkunni við flugferðir yfir fleiri en fjögur tímabelti getur framkallað streitu hjá flugþjónustuliðum. Streitan hefur áhrif á fjölmarga þætti eins og t.d. svefn, úthald, einbeitningu, meltingu og hormónaframleiðslu auk getu flugfreyjunnar til þungunar.

Rúmlega 20% flugfreyja á barnseignaraldri verða fyrir truflun á eðlilegri hormónaframleiðslu sem hefur áhrif á getu þeirra til þungunar. Hormónatruflun getur valdið seinkun á egglosi og valdið óreglulegum tíðablæðingum og ótímabæru fósturláti.

Flugfreyjur eru tvisvar sinnum líklegri til að verða fyrir ótímabæru fósturláti á fyrstu þremur mánuðum meðgöngu en kynsystur þeirra sem starfa á jörðu niðri. Með auknu starfshlutfalli eykst hættan á fósturláti.

Geimgeislunin sem flugþjónustuliðar verða stöðugt fyrir í starfi er óæskileg fyrir barnshafandi flugfreyjur (sjá pistil um geimgeislun).

Hvað er það sem hefur áhrif á tíðahring flugfreyjunnar ?

Undir eðlilegum kringumstæðum eykst framleiðsla hormónsins melatónín þegar dimma tekur og við það eykst syfja. Ýmislegt getur dregið úr framleiðslu þess svo sem eins og birta að kvöldi og næturlagi. Hormónið vinnur ekki einungis gegn svefnleysi og flugþreytu heldur stillir það líkamsklukkuna fyrr að staðartíma þegar flogið er yfir tímabelti. Melatónin hefur keðjuverkandi áhrif á framleiðslu (seytingu) annarra hormóna í líkamanum, svo sem framleiðslu kvennhormónanna LH, FSH, estrogen, progesteron, vaxtarhormónsins gónadótrópíns, oxýtósíns og kortisóls. Flugfreyjur sem verða reglulega fyrir röskun á líkamsklukkunni er hættara við seinkun á egglosi vegna minni framleiðslu hormónsins melatónín. Seinkun á egglosi getur haft áhrif á tíðablæðingar með þeim afleiðingum að óeðlilega langur tími líður á milli þeirra. Eðlilegur tími milli tíðablæðinga er um það bil 26-28 dagar.

Hormónið kortisól, sem oft er kallað stresshormón, eykst við álag. Aukin framleiðsla þess hægir aftur á móti á framleiðslu progesterons en rétt magn þess er nauðsynlegt. Progesteronið hjálpar konunni að verða þunguð og viðheldur þunguninni. Magn þess verður að vera innan eðlilegra marka hjá barnshafandi flugfreyjum svo meðgangan gangi eðlilega fyrir sig. Hormónatruflun sem verður við röskun á líkamsklukkunni sem hér er lýst getur haft áhrif á tíðahring flugfreyjunnar og möguleika á getnaði hjá þeim sem eru að reyna verða barnshafandi eða stuðlað að ótímabærum getnaði ef varnir eru ekki notaðar.

Einnig hafa rannsóknir sýnt að flugfreyjur eru í aukinni hættu að fæða fyrir tímann og að fæðingarþyngd barnsins sé undir meðallagi. Barnshafandi flugfreyjur ættu að fljúga stuttar, sérvaldar flugferðir og vera í skertu vinnuhlutfalli. Starfið er líkamlega erfitt og krefst líkamlegs úthalds sem margar barnhafandi konur ráða illa við. Geimgeislunin ein og sér sem barnshafandi flugfreyjur verða fyrir í starfi er trúlega of mikil ef grannt er skoðað. Talið er að flugáhafnir í fullu starfi verði fyrir mánaðarlegri geimgeislun sem svari til þriggja til fjögurra lungnaröngenmyndataka eða fleiri. Barnshafandi kona myndi hugsa sig tvisvar um áður en hún færi í svo margar röngenmyndatökur fyrstu fimm mánuði meðgöngu. Flugfreyjan veit ekki betur því viðeigandi fræðslu um málefnið skortir meðal stéttarinnar.

Í ljósi þessara niðurstaðna væri æskilegt að barnshafnandi flugfreyjur væru í barneignafríí á launum alla meðgönguna en fjölmörg erlend flugfélög veita flugfreyjum frí frá störfum meðan á meðgöngu stendur með velferð móður og fósturs í huga.


Aukið minnisleysi hjá flugfreyjum og- þjónum

Sem betur fer er stöðugt verið að rannsaka áhrif langra flugferða á flugáhafnir og eru niðurstöður þeirra áhugaverðar þó þær séu ekki í hag flugþjónustuliða.                 Niðurstöður erlendra rannsókna eiga einnig við um íslenska flugþjónustuliða og því áhugaverðar sökum þess. Breskir rannsakendur mældu kortisól magn (stress hormón) í munnvatni flugþjónustuliða sem urðu reglulega fyrir truflun á líkamsklukkunni sökum flugs yfir mörg tímabelti. Í ljós kom að kortisól magn í munnvatni þeirra var mun hærra og viðvarandi allan vinnudaginn miðað við flugþjónustuliða sem flugu styttri flugferðir án truflunnar á líkamsklukkunni. Því hærra sem stress hormónið mældist hjá flugþjónustuliðunum því fleiri andleg og líkamleg einkenni komu í ljós hjá þeim.

lengur sem flugþjónustuliðarnir voru með óeðlilega hækkun á stress hormóninu í munnvatni (árafjöldi) því fleiri einkennum kvörtuðu þeir yfir. Einkennin voru minnisleysi, skert langtímaminni og skertur hæfileiki til rökhugsunnar.

Einkennin voru áberandi eftir fimm ára viðveru í starfi og jukust með hækkandi starfsaldri. Röngtenmyndataka á heila flugþjónustuliðanna sem urðu fyrir reglulegri truflun á líkamsklukkunni,sýndi einnig rýrnun á hægri gagnaugablaði heilans. Engin heilarýrnun var merkjanleg hjá þeim flugþjónustuliðum sem ekki urðu fyrir truflun á líkamklukkunni.

Þekkt er að áverkar eða slys sem verða á gagnaugablaði heilans leiði til minnisleysis og skertrar vitsmunalegrar getu hjá heilbrigðum einstaklingum.

Þessar niðurstöður eru áhugaverðar sérstaklega í ljósi þess að margir flugþjónustuliðar kvarta undan auknu minnisleysi án þess að átta sig á ástæðu þess. Að sjálfsögðu geta fleiri þættir haft áhrif á aukið minnisleysi svo sem hækkandi aldur, sjúkdómar, andlegt ástand, áfengis- og lyfjainntaka. Þörf er á viðeigandi ráðstöfunum til þess að viðhalda og bæta heilbrigði flugþjónustuliða í starfi. 


Bloggfærslur 17. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband