Þarftu að taka inn svefnlyf?

Flugþjónustuliðar nýta sér ólíkar aðferðir til þess að sofna og viðhalda svefni fyrir morgunflug. Sumir nýta sér óhefðbundnar aðferðir, aðrir taka inn ólyfseðilskyld eða lyfseðilskyld lyf. Hér verður farið yfir algengustu lyfseðilskyld svefnlyf sem notuð eru á Íslandi til fróðleiks fyrir flugþjónustuliða.

Meltatónín er hormón sem við framleiðum við eðlilegar kringumstæður þegar dimma tekur. Ýmislegt getur dregið úr framleiðslu þess, svo sem birta að næturlagi en við slíkar aðstæður stöðvast melatónínframleiðslan. Helstu áhrif melatóníns eru að það gerir einstaklinginn syfjaðan. Hormónið vinnur ekki einungis gegn svefnleysi og flugþreytu heldur stillir það líkamsklukkuna fyrr að staðartíma þegar flogið er yfir tímabelti. Algeng skammtastærð er 3 mílligrömm og það tekur lyfið u.þ.b. hálftíma að virka eftir inntöku. Ekki er ráðlagt að taka stærri skammta því ekki er talið að stærri skammtar virki betur né lengur. Melatónín hefur áhrif á kynhormón kvenna en það dregur úr losun estrógens og getur því hindrað egglos og þar með þungun. Því ættu konur, sem eru í barneignarhugleiðingum, alls ekki að taka inn melatónín né konur með börn á brjósti.

Tylenol PM er verkjalyf sem ætlað er fyrir svefninn. Lyfið samanstendur af parasetamóli (panódíl) og dífenhýdramíni. Dífenhýdramín hefur róandi verkun og eftir henni sækjast margir eftir, til þess að sofna fyrir morgunflug. Það er einnig notað í hóstamixtúrur og ofnæmislyf. Það er ákaflega misjafnt hversu lengi áhrif TylenolPM standa. Sumir verða mjög þungir fram eftir morgni af því að taka það inn en aðrir finna ekki fyrir þessum þyngslum þegar þeir fara á fætur. Aðalatriðið er að flugþjónustuliðinn hafi sofið nógu lengi til þess að áhrif lyfsins séu að baki þegar að fótaferðartíma er komið eða hreinlega sleppa því að taka inn lyf sem hefur þessi róandi áhrif á líkamann.

Imovan er lyfseðilskylt svefnlyf. Kostir lyfsins eru að það styttir tímann sem það tekur mann að sofna, lengir svefntímann og fækkar andvökustundum. Lyfið er um það bil 30 mínútur að virka frá því það er tekið inn. Algengasta skammtastærð er 5 mílligrömm. Helstu aukaverkanir, sem kvartað er undan, er biturt bragð í munni eftir töku lyfsins. Helmingunartími er 4-6 klukkustundir,en helmingunartími lyfsins er mælikvarði á hve lengi lyfið er að fara úr líkamanum. Það segir manni hins vegar ekki hvað langan tíma lyfið hefur áhrif á þann sem það tekur.

Stilnoct er lyfseðilskylt svefnlyf og gerir sama gagn og Imovan, þ.e.a.s. hjálpar neytandanum að sofna og viðhalda svefni. Algeng skammtastærð 5 milligrömm. Lyfið er 15-20 mínútur að virka frá því það er tekið inn, sem sagt fljótvirkara en Imovan. Aftur á móti er helmingunartími Stilnoct stuttur eða 0,8-4 klukkustundir. Lyfið er virkt í 4- 8 klst. Því má segja að Stilnoct sé heppilegra fyrir þá sem kjósa svefnlyf því það fer fyrr úr líkamanum en Imovan.

Ef svefnlyf eru tekin inn tímanlega fyrir morgunflug, eða ekki seinna en kl. 21:30, ætti verkun þeirra að vera að baki þegar flugþjónustliðinn fer á fætur kl. 5:00. Ef svo er ekki, er alltaf hætta á að lyfin geti haft áhrif á árvekni einstaklingsins og þau séu því enn að einhverju leyti virk í líkamanum. Öll svefnlyf eru afar vanabindandi, mun meira en menn gera sér almennt grein fyrir. Einhverjum kann að þykja það orka tvímælis að hér sé verið að fræða um notkun svefnlyfja. Hér er hins vegar um að ræða eina af þeim leiðum sem sérfræðingar um svefn og þreytu flugþjónustuliða ráðleggja þeim til þess að koma í veg fyrir flugþreytu og svefnleysi.

Það gefur auga leið að flugþjónustuliðar eru betur til þess fallnir að sinna störfum sínum úthvíldir og í mörgum tilfellum hjálpa skammvinn svefnlyf þeim að hvílast og að sinna störfum sínum betur. Þessi pistill svarar vonandi ýmsum spurningum sem flugþjónustuliðar hafa varðandi inntöku á svefnlyfjum ef þeir eru að hugleiða slíkt til að bæta svefn sinn.


Bloggfærslur 5. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband