Flughræðsla meðal flugfreyja og- þjóna

Talið er að 20-50% flugfarþega þjáist af vægri flughræðslu og að þar af þjáist um 10% þeirra af alvarlegri flughræðslu. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að kvenflugfarþegar eru líklegri til að finna fyrir hræðslu á flugi en karlar. Þá eru konur eru almennt kvíðnari fyrir flug og viðurkenna frekar flughræðsluna en karlmenn.

Um það bil 35% flugþjónustuliða finna öðru hvoru fyrir flughræðslu í starfi og 4% flugþjónustuliða finna oft fyrir flughræðslu. Flugfreyjur kvarta meira um flughræðslu en flugþjónar.

Flugþjónustuliðar og þá sérstaklega flugfreyjur sem eiga ung börn (0-5 ára) virðast finna mest fyrir flughræðslu. Þekkt er að almenningur finni fyrir flughræðslu í kjölfar foreldrahlutverksins en eins og allir vita kallar það á aukna ábyrgð. Hræðsla flugþjónustuliða sem eiga ung börn felst í þeirri tilhugsun að þeir eigi ekki afturkvæmt til ungra barna ef þeir lenda í alvarlegu flugslysi. Í ljósi þessa þarf ekki að koma á óvart að einhleypar og barnlausar flugfreyjur finni síst fyrir flughræðslu. Fjórði hver flugþjónustuliði upplifir á starfsferlinum aðstæður í starfi sem ógnar öryggi hans og kallar fram hræðslu. Flugþjónustuliðar sem hafa lent í óvæntum atvikum í flugi sem hafa valdið hræðslu eru marktækt líklegri til þess að eiga við heilsufarsvandamál að stríða í formi mikillar þreytu, pirrings, streitu og svefnvandamála.

Hvað hræðir flugþjónustuliða?

Þeir flugþjónustuliðar sem finna fyrir flughræðslu eins og hér er lýst telja að ókyrrð á flugi (59%), slæmt veður í flugtaki eða lendingu, óvænt atvik á flugi svo sem eldur í farþegarými, bráðarveikindi meðal áhafnar eða farþega séu helstu ástæður hræðslunnar. Einnig geta komið upp kvíðvænlegar aðstæður ef farþegi ógnar flugþjónustliðum eða flugfarþegum sökum ofneyslu áfengis eða lyfja. Þegar flugþjónustliðar eru spurðir hvaða aðrir þættir skipta máli við ógnandi aðstæður segja þeir að traust til flugmanna verði að vera tilstaðar, sérstaklega ef upp koma óvenjulegar aðstæður sem reyna á starfsreynslu og hæfni þeirra. Samkvæmt norskri rannsókn bera flugþjónustuliðar minna traust til flugmanna sem sýna hrokafulla framkomu og þeirra sem neyta mikils áfengis í hvíldarstoppum sem gæti haft áhrif á flughæfni þeirra.

Sérfræðingar sem rannsakað hafa flughræðslu á meðan flugþjónustuliða telja að besta ráðið til þess að minnka flughræðslu þeirra á meðal sé að auka fræðslu um starfsemi flugvélarinnar, getu hennar í ókyrrð og hvernig hún virkar við erfiðar aðstæður. Með aukinni þekkingu minnkar hræðsla fólks.

Gott upplýsingaflæði frá flugmönnum um væntanlega ókyrrð eða óvenjulegar aðstæður á flugi er eitt af þeim atriðum sem flugþjónustliðar telja að geti komið í veg fyrir kvíða og hræðslu meðal flugþjónustliða og flugfarþega.

Þeir flugþjónustliðar sem unnið hafa farsællega úr hræðslu í kjölfars óvæntra atvika í flugi tengja það fundum (debriefing) í lok flugs. Þar fær öll flugáhöfnin (flugmenn og flugþjónustliðar) tækifæri til þess að tjá hugsanir sína og viðbrögð við atburðinum. Á slíkum fundum er afar mikilvægt að allir í áhöfninni fái tækifæri til að létta á tilflinningalegri streitu en oft eru þessir fundir eina tækifærið sem áhafnarmeðlimirnir fá til þess. Þörfin fyrir fagaðstoð getur verið minni eða engin ef tekist hefur að virkja bjargráð einstaklingsins. Þeir flugþjónustuliðar sem fengið hafa tækifæri til þess að tjá sig á slíkum fundum eru margfallt betur til þess fallnir til að mæta óvæntum aðstæðum síðar á flugi en þeir sem ekki hafa unnið úr hræðslu og vanlíðan í kjölfar óvæntra atvika.


Bloggfærslur 9. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband