Slysin gera ekki boð á undan sér


Atvinnutengd slys um borð í flugvélum hafa ekki hlotið verðskulda athygli þeirra sem að koma. Flugþjónustuliðar verða fyrir misalvarlegum atvinnutengdum slysum rétt eins og aðrar starfsstéttir. Alvarlegustu slysin geta verið þess eðlis að flugþjónustuliðarnir verði að hætta störfum sökum langvarandi áverka eða örkumlunar.

Það er mikilvægt að innan hvers flugfélags sé komið á fót ákveðinni öryggismenningu. Tilgangur slíkrar öryggismenningar er að vekja athygli á og fækka slysum á meðal flugþjónustuliða.
Ef flugþjónustuliðar tilkynna alltaf þau slys sem þeir verða fyrir í starfi og upplýsingarnar eru ítarlega skráðar niður verður til gagnagrunnur sem gefur möguleika á því að skapa vitneskju um málefnið. Slík þekking er afar dýrmæt því hægt er að stýra forvörnum í takt við hana. Forvarnir felast meðal annars í hagnýtum atriðum svo sem eins og hvenær slysin verða (ár, mánuður, vikudagur, tímasetning), hver lendir í þeim (flugmenn/flugþjónustuliðar/kyn/ aldur), hver algengustu slysin eru um borð, hvað veldur þeim og hverjar afleiðingar þeirra eru. Með svo ítarlegum upplýsingum er hægt að kortleggja slysin. Einnig er mikilvægt að haldið sé utan um fjölda veikindadaga og örorku sem flugþjónustuliðar verða fyrir í kjölfar slysa um borð en slíkar upplýsingar vekja alla til umhugsunar. Enginn vill lenda í slysi.

Víða erlendis liggja upplýsingar um atvinnutengd slys fyrir hjá flugfélögum. Danir hafa haldið þessum upplýsingum til haga og eiga vandaðan gagnagrunn yfir öll slys sem orðið hafa á flugþjónustuliðum síðast liðin ár (Arbejdsulykker blandt piloter og kabinepersonale om bord pá dansk indregistrerede fly). Íslenskir flugþjónustuliðar geta margt lært af danska gagnagrunninum enda vinnuaðstaða svipuð hjá báðum flugfélögum.
Í danska gagnagrunninum má sjá að flest slys verða flugi eða um 57% þeirra. Ástæðan er oftast ókyrrð en við þær aðstæður getur flugþjónustuliðinn henst til og fengið á sig högg eða annan áverka. Næst flest slysanna eða um 25% þeirra verða á jörðu niðri. Um er að ræða slys sem verða við útgang flugvélar, oftast vegna sleips undirlags. Flugþjónustuliðar geta runnið til á gólfi og fengið svokallaða fall-áverka. 13% slysa verða vegna harðrar lendingar. Viðkomandi getur orðið fyrir höggi sem veldur hnykk á mjóbaki, mjöðmum eða hnakka. Einnig verða slys við hreyfingu flugvélar á flugvelli, fyrir flugtak eða eftir lendingu. Slysin verða aðallega þegar flugþjónustuliðar eru við störf í flugvél t.d. við sýningu á öryggisbúnaði flugvélarinnar eða við lokafrágang handfarangurs fyrir flugtak.

Flest slysin verða yfir sumartímann, trúlega vegna aukins fjölda flugferða og fjölda nýliða um borð. Þá verða flest slys á sunnudögum en þá daga voru flestar flugferðir í umræddri skýrslu flognar. Flest slys verða á morgunflugi (08:00-15:00) en næstflest á kvöldflugi. Engum þarf að koma á óvart að flugfreyjur lenda í flestum slysunum eða 68% þeirra sem slasast enda eru þær fleiri en flugþjónar. Eldri flugþjónustuliðar lenda frekar í slysum en þeir yngri eða á aldrinum 33-45 ára. Trúlega er meirhluti danskra flugþjónustuliða í þeim aldurhópi.

Algengir áverkar sem flugþjónustliðar verða fyrir eru bruni á höndum við meðhöndlun á heitum mat, vökva eða vegna snertingar á heitum ofnum. Áverkar geta komið við að lyfta þungum hlutum, einnig klemmuáverkar eða áverkar sem verða við högg utan í vinnuumhverfi. Einnig verða slys á flugþjónusuliðum við umsýslu handfarangurs farþega og þá eru þess einnig dæmi að flugþjónustuliðar hafi fengið mar eftir öryggisbelti í áhafnasæti eftir harða lendingu. Flestir áverkarnir eru á baki og mjóbaki, efri og neðri útlimum, öxlum, höfði og hálsi. Helstu áverkar eru tognun, bruni, skurðir, marblettir og beinbrot.

Kæri lesandi, með aukinni þekkingu má án efa fækka slysum á flugþjónustuliðum þó vissulega sé ekki hægt að koma í veg fyrir þau öll. Það er best gert með því að halda til haga ofangreindum upplýsingum og fræða flugþjónustuliða um við hvaða aðstæður slysin verða um borð, hvenær þau verða og hver verður fyrir þeim. Vel mætti bæta hnitmiðuðum slagorðum inn í öryggis punkta mánaðarins, til dæmis hvaða daga flest slysin verða og við hvaða aðstæður. Það mun auka öryggi og lífsgæði íslenskra flugþjónustuliða. Það er nákvæmlega það sem flugþjónustuliðar vilja.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband