Lög um vinnuvernd fyrir flugfreyjur og- þjóna

Flugfreyju og –þjónastarfið er skemmtilegt og fjölbreytt starf þar sem engin flugferð er eins. Vinnufélagarnir eru upp til hópa frábærir og ekki spillir fyrir að í starfinu gefst kostur á að ferðast víða um heim. Það kemur því ekki á óvart að fólk með ólíkan bakgrunn sæki í starfið sem hefur lengi fylgt ákveðinn ævintýraljómi. Lítið er hins vegar rætt um erfiðar starfsaðstæður og þá staðreynd að starfsumhverfi okkar er með versta móti. Samkvæmt Business Insider UK eru vinnuaðstæður flugfreyja og – þjóna í öðru sæti yfir verstu starfsaðstæður í hinum vestræna heimi og eru starfsmenn kjarnorkuvera til samanburðar í 14. sæti. (sjá http://uk.businessinsider.com/the-most-unhealthy-jobs-in-america-2015-11?r=US&IR=T%2F#1-dentists-dental-surgeons-and-dental-assistants-27)

Við mat á starfsumhverfi flugfreyja og- þjóna vegur þungt það geislamagn sem flugáhafnir verða fyrir í flugi og hversu útsett við erum fyrir sýkingum, smitsjúkdómum og mengun um borð. Skal því engan undra að flugáhafnir flokkist sem geislastarfsmenn og verði fyrir meiri geislun en t.d. geislafræðingar á sjúkrahúsum og starfsmenn kjarnorkuvera. Samkvæmt nýlegri bandarískri rannsókn fá flugfreyjur og -þjónar allt að fjórum sinnum oftar kvef en aðrar starfsstéttir og margir eru með krónískt lungnakvef. Rannsóknir sýna jafnframt að flugfreyjur eru líklegri en aðrar konur að þróa með sér krabbamein í brjósti, legi eða eggjastokkum sem rekja má til geimgeislunar. Þá eru stoðkerfisverkir og meiðsli algengari hjá flugfreyjum og -þjónum en öðrum starfsstéttum sem rekja má til síendurtekinna hreyfinga í starfi, vinnuaðstöðu og vinnuálags.

 Hvaða lög og reglur gilda um vinnuumhverfi flugfreyja og-þjóna?

Í kafla 6 í lögum um loftferðir (60/1998) er fjallað um vinnuumhverfi áhafna um borð og hefur Samgöngustofa eftirlitsskyldu. Í Vinnuverndarlögunum (lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum 46/1980) sem ná til allra starfsmanna á landi sinnir Vinnueftirlitið hins vegar eftirliti. Þegar lögin eru borin saman hallar mjög á flugáhafnir oft því miður á kostnað heilsu þeirra. Flugrekendum ber að fara eftir lögum og því er mikilvæg að lögin tryggi öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. Brýnt er að endurskoða lögin og tryggja flugáhöfnum nauðsynlega vinnuvernd og þar getur öflugt stéttarfélag skipt sköpum til að þrýsta á um úrbætur. Jafnframt er nauðsynlegt að efla forvarnir meðal flugfreyju og –þjónahópsins því þannig má að hluta fyrirbyggja heilsufarsskerðingu sem rekja má til starfstengdrasjúkdóma og slysa.

Með reglulegum rannsóknum má safna mikilvægum gögnum um helstu hættur í vinnuumhverfinu og atvinnutengda sjúkdóma í okkar röðum og nota til úrbóta. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og ætti öryggi og heilbrigði félagsmanna að vera stór þáttur í starfi stéttarfélagsins okkar. Tímabært er að stofna heilbrigðisnefnd sem vinnur markvisst að heilsuvernd stéttarinnar og gefa heilsu félagsmanna aukið vægi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband