Svefnlaus í Seattle

Svefnvandamál hjá flugfreyjum og þjónum eru mjög algeng. Rannsóknir hafa sýnt að stéttin á erfitt með að sofna og sefur stutt fyrir morgunflug. Stór hópur flugfreyja og þjóna á erfitt með að fá samfelldan svefn vestanhafs og mæta þreytt í flug heim.

Ef flugfreyjur og þjónar fá ekki næganlegan svefn verður svokölluð „svefnskuld“ sem bæta þarf með lengri svefntíma á næsta frídegi. Þetta getur valdið óreglu á svefnvenjum sem getur þróast í ákveðinn vítahring sem orsakar langvarandi svefnleysi og vanlíðan. Í rannsókn sem gerð var á íslenskum flugfreyjum- og þjónum kom í ljós að stór hópur aðspurðra höfðu sofnað um borð án þess að hafa ætlað sér það (1).

Ef áhafnarmeðlimur er það þreyttur að hann sofnar við störf er hætta á að hann sé ekki fær að halda þeirri árvekni sem þarf í starfi flugfreyja og þjóna.

Af hverju finna flugfreyjur og- þjónar fyrir svefnskorti?

Í fyrsta lagi er starf flugfreyja- og þjóna vaktavinnustarf sem felst oft á tíðum á flugferðum yfir tímabelti sem ruglar líkamsklukkuna, en sá ruglingur gerir það að verkum að svefnmunstrið ruglast. Allur viðsnúningur á líkamsklukkunni hefur áhrif á lífeðlisfræðilegar sveiflur líkamans sérstaklega þegar misræmis gætir milli líkamsklukku og staðartíma (dæmi: lent er í Seattle eftir miðnætti og þar er sól). Í öðru lagi starfar stéttin undir álagi.

Rannsóknir hafa sýnt að stór hluti hennar þjáist af kvíða og þunglyndi (1,2). Niðurstöður íslenskrar rannsóknar sýndi að meðal svefnlengd íslenskra flugfreyja og þjóna fyrir morgunflug eru fimm klukkustundir, sérfræðingar um svefn myndu seint telja það nægjanlega hvíld fyrir 12 klukkustunda flugvakt.

Hverjar eru afleiðingar svefnskorts?

Algengasta afleiðing svefnskorts er þreyta og orkuleysi. Margir finna fyrir orkuleysi á morgun- og næturflugum og er það merki um andlega og líkamlega ofreynslu. Ekki má gleyma að súrefnisskerðing um borð getur einnig stuðlað að orkuleysi, sérstaklega ef flugfreyjan eða þjóninn glímir við blóðleysi eða einhvern annan heilsubrest. Við svefnleysi minnkar árekni sem skilar sér í skorti á einbeitingu en slíkt getur valdið slysum, fjölgun veikindadaga og leitt til minni framleiðni. Líkamleg einkenni við svefnleysi eru:skert orka, höfuðverkur, minnistruflanir og streita (3).

Mikilvægt er að þeir sem sjá um uppröðun flugvakta hafi í huga að starfsmenn nái góðri hvíld milli flugvakta þar sem að ávinningur af slíkri vinnu er fækkun á veikindadögum og ánægðari starfsmenn.

Hvað þurfa flugfreyjur og þjónar að sofa í margar klukkustundir?

Flestum nægir að sofa í sjö til átta klukkustundir, sumir þurfa styttri svefn aðrir jafnvel lengri. Þeir sem sofa að meðaltali sjö klukkustundir á nóttu eiga bestu lífslíkurnar ef miðað er við þá sem sofa skemur eða lengur (3). Mikilvægast er að einstaklingurinn sé úthvíldur og tilbúinn fyrir dagsins önn þegar hann vaknar.

Eru sumir líklegri en aðrir að finna fyrir svefnskorti?

Já, konur þola verr svefnskort og vökur en karlar, enda svefnvandamál mun algengari hjá þeim. Konur þurfa að sofa að meðaltali 30-60 mínútur lengur en karlmenn. Ekki má gleyma því að þegar vakt kvenna er lokið bíður þeirra oftar en ekki fleiri skyldur heima fyrir en karla. Hvað aldur varðar þá eiga eldri einstaklingar síður með að missa svefn og eiga því verr með að sinna vaktavinnu með tilheyrandi svefntruflunum.

Hvað geta flugfreyjur og þjónar gert ef þeir eiga í svefnerfiðleikum?

Birtingarmyndir svefnleysis er ákaflega mismunandi en hjá flugfreyju og þjónastéttinni gætu eftirfarandi einkenni verið til staðar:  Erfiðleikar með að sofna, t.d. fyrir morgunflug. Það er mismunandi hvað hentar hverjum og einum, mörgum reynist vel að vakna snemma daginn áður svo þreyta sé farin að segja til sín kvöldið fyrir morgunflug. Einnig er notast við það að fara upp í rúm tímanlega, en sömuleiðis getur slökun af ýmsum toga hjálpað við svefn. Ekki horfa á sjónvarp, síma né nota tölvur rétt fyrir svefn.

* Erfileikar við að sofa út/lengur í USA stoppum. Hér getur verið erfitt að ráðleggja flugfreyjum og þjónum hvað best sé að gera til þess að ná góðri næturhvíld í Bandaríkjunum. Ein ákveðin aðferð hentar ekki öllum. Mörgum finnst gott að fara á fætur og stunda íþróttir eða göngu, og leggja sig eftir hádegið fyrir pick up. Sumum finnst gott að lesa þegar þeir vakna eldsnemma en mikilægast er að forðast athafnir sem örva eða vekja mann. Til dæmis er best að kveikja ekki á sjónvarpi eða tölvu því birtan sem kemur frá þeim tækjum gæti komið í veg fyrir að svefnhöfgi komi á ný. Róandi tónlist eða slökunaræfingar hjálpa mörgum að sofna.

* Erfileikar að viðhalda svefni eða vakna almennt of snemma. Best er fyrir einstaklinga sem glíma við þetta vandamál að leita sér hjálpar hjá svefnsérfræðingum. Ein árangursríkasta meðferðin er HAM meðferðin. Hún bætir svefn hjá um það bil 80-90% einstaklinga, en meðferðin gengur út á það að uppræta neikvæðar hugsanir og atferli sem hafa slæm áhrif á svefn. Í dag er hægt að fá þessa meðferð í gegnum netið á vefsíðunni betrisvefn.is. Þannig geta þeir sem ekki geta sótt meðferð á stofu fengið þessa hjálp hvar sem þeir eru staddir í heiminum.

Eru svefnlyf lausn fyrir flugfreyjur- og þjóna? Fjölmargar flugfreyjur- og þjónar hafa nýtt sér svefnlyf fyrir morgunflug eða til undirbúnings fyrir næturflug. Samkvæmt rannsókn sem gerð var á íslenskum flugfreyjum- og þjónum eru það frekar eldri flugfreyjur (enginn karlmaður sagðist nota svefnlyf í rannsókninni) sem nota svefnlyf, en eflaust eru það meðal annars aldurstengdir svefnerfiðleikar sem stuðla að þeirri notkun (1). Varasamt er þó að mæla beinlínis með svefnlyfjum því þau eru ákaflega ávanabindandi og hafa aukaverkanir sem margir þola illa. Hitt er annað mál að mæta ósofin eða mjög illa hvíldur í flug er ekki eftirsóknarvert. Farasælast er að prófa allar aðrar meðferðir áður en svefnlyf eru kosin fram yfir annað.

Á flugráðstefnu sem ég sótti í Atlanta árið 2013 ráðlagði einn helsti flugheilsusérfræðingur Bandaríkjanna flugáhöfnum frekar að taka inn svefnlyf fyrir morgun/eða næturflug en að mæta ósofin í flug. Ef svefnlyf eru tekin inn tímanlega, t.d. fyrir morgunflug eða ekki seinna en kl 21.30, ætti verkun þeirra að vera að baki þegar flugfreyjan-eða þjónninn fer á fætur. Ef svo er ekki, er alltaf hætta á að lyfið geti haft áhrif á árverni einstaklingsins og þau séu því enn að einhverju leiti virk í líkamanum þegar mætt er til vinnu.

Heimildir:

1. Ásta Kristín Gunnarsdóttir (2013). Starfstengd þreyta meðal flugþjónustuliða. Áhrifaþættir þreytu og afleiðingar hennar. Meistararitgerð, Háskóli Íslands, Hjúkrunarfræðideild.

2. McNeely E., Mordukhovich I., Tideman S. o.fl. (2018). Estimating the health consequences of flight attendant work: Comparing flight attendant health to the general population in a cross- sectional study. BMC Public Health. 18: 346 3. Erla Björnsdóttir. (2017). Svefn. JPV útgáfa. Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband