þunguð í 39000 fetum

Fjöldi flugfreyja er barnshafandi á hverjum tíma enda stór hluti þeirra á barneignaraldri. Til ársins 2016 máttu þær fljúga fyrstu 5 mánuði meðgöngu en þá breyttust reglur og núna mega barnshafandi flugfreyjur starfa í háloftunum fyrstu 16 vikurnar og sex daga meðgöngu. Markmið nýrra reglna var að tryggja velferð fóstursins og þá sér í lagi fyrir geislun því þó móðir sé geislastarfsmaður er fóstrið það ekki. Geislaálag á fóstrið má ekki fara yfir sem svarar til 1 mSv á meðgöngu, þ.e. frá því flugfreyja verður barnshafandi og þar til hún fer í barneignarleyfi (8).

Hvenær á að tilkynna þungun?

Fóstrið er viðkvæmast fyrir geislun fyrstu þrjá mánuði þungunar þegar heili og önnur mikilvæg líffæri eru að myndast. Mikilvægt er því að tilkynna þungun sem fyrst þar sem geislaálag er mælt frá þeim degi sem þungun er tilkynnt og er ekki skoðað afturvirkt. Atvinnurekandinn er bundinn trúnaði og má ekki upplýsa um ástand flugfreyjunnar en getur gert ráðstafanir til að vernda flugfreyjuna (fóstrið) gegn of miklu geisla- og vinnuálagi.

Hversu lengi má flugfreyja starfa?

Flugfreyjur mega sinna flugfreyjustarfinu í 16 vikur og 6 daga frá þungun. Eftir þann tíma mega þær ekki sinna starfi í háloftunum. Samkvæmt kjarasamningi geta vinnuveitendur óskað eftir að þær flugfreyjur sem eru með gildan ráðningarsamning eða hafa starfað samfleytt í a.m.k. 12 mánuði sinni öðru starfi við hæfi næstu fimm mánuðina, til dæmis léttum störfum á skrifstofu. Ekki er þó alhlítt að það sé alltaf farið eftir þessu ákvæði í kjarasamningi, það fer til dæmis eftir verkefnastöðu hverju sinni.

 Geimgeislun

veldur því að flugáhafnir flokkast sem geislastarfsmenn og verður engin önnur starfsstétt hér á landi fyrir jafnmikilli jónandi geislun. Flugrekendum ber skylda til að veita flugáhöfnum fræðslu um áhættu geimgeislunar, mæla geislun hvers og eins starfsmanns og veita þeim aðgang að yfirliti um geislun sína (7). Hjá barnshafandi flugfreyjum þarf að skipuleggja vinnuvaktir og flugleiðir þannig að geislaálag fari ekki yfir 1 mSV á fyrstu 16 vikum þungunnar (12). Geislun flugáhafna ræðst af eftirfarandi:

• Flugleið: því norðar sem er flogið því meiri geimgeislun

• Flughæð: því hærra sem flogið er því meiri geimgeislun

• Flugtíma

því lengur sem flogið er því meiri geimgeislun Aðrir þættir eru t.d. sólgos og þá getur geislun verið margföld. Talið er að 2% fósturláta sem verða hjá flugfreyjum á fyrstu 13 vikum sé af völdum aukinnar geislunar (3,5,8). Fyrstu 3 mánuði meðgöngu eru líffæri að myndast en þrátt fyrir að fóstrið sé viðkvæmast þá fyrir geislun telja sérfræðingar að líkur á fósturskemmdum séu hverfandi (4).

Líkamleg áreynsla Líkamleg áreynsla flugfreyja er mikil miðað við mörg önnur störf en alþjóðleg skilgreining á líkamlega erfiðu starfi er: „Að standa í fæturnar og eða ganga í meira en átta klukkustundir á vinnuvakt. Lyfta eða færa til hluti sem eru sjö kíló eða meira, tíu sinnum á dag. Beygja sig niður oftar en 25 sinnum á vinnuvakt. Ýta eða draga hlut sem er sjö kíló eða þyngri tuttugu sinnum á vinnuvakt“ (9). Þreyta eykst á meðgöngunni og kunna starfstengdir þættir svo sem stöður, þrengsli, hávaði, kuldi/hiti að auka á þreytuna. Æskilegt er að flugfreyja geti sest niður og hvílt sig þegar þess er þörf og komist reglulega á salerni en aðstæður um borð bjóða oft ekki upp á það (13).

Flugþreyta (jetlag) Flugþreyta (jetlag) eykur þreytu og getur haft áhrif á þungunina. Flugþreytan stafar af ósamræmi milli líkamsklukkunnar og staðartíma. Dægursveiflan getur auðveldlega truflast ef birtan er á skjön við líkamsklukkuna og getur valdið ýmissi líkamlegri og andlegri vanlíðan, s.s. þreytu og syfju yfir daginn. Við truflun á líkamsklukkunni getur eðlileg framleiðsla hormónsins Melatonin raskast og haft áhrif á framleiðslu annarra hormóna líkamans svo sem framleiðslu kvennhormóna (LH, FSH, estrogen og progesteron). Talið er að rúmlega 20% flugfreyja á barnseignaraldri verði fyrir truflun á eðlilegri hormónaframleiðslu sem hefur áhrif á getu þeirra til þungunar. Hormónatruflun getur valdið seinkun á egglosi, óreglulegum blæðingum og ótímabæru fósturláti (2,6).

Vaktavinna

Vaktavinna þar sem vinnutíminn er langur og sér í lagi næturvinna getur haft veruleg áhrif á heilsu flugfreyja, hvort sem þær eru barnshafandi eða ekki. Niðurstöður rannsókna á áhrifum vaktavinnu á barnshafandi konur sýna að þær ættu ekki að vinna vaktavinnu sökum áhættu á fósturmissi og ótímabærri fæðingu (9). Góður svefn er ákaflega mikilvægur fyrir barnshafandi konur til þess að fá næga hvíld. Flugfreyjustarfið er vaktavinna og flest flug eru að einhverju leyti næturflug (flug sem hefjast klukkan 6 eða fyrr að morgni telst næturflug). Samkvæmt rannsóknum telja 65% íslenskra flugfreyja-og þjóna sig ekki fá nægan svefn ef miðað er við lágmarksþörf (5).

Hávaði

Hávaði í flugvél mælist mjög oft yfir 65 dBA en allur hávaði meira en 50 dBA er talin vera of mikill án viðeigandi heyrnahlífðar. Ef hávaði í vinnuumhverfi fer yfir 85 dBA í lengri tíma þá skerðist bæði heyrn starfsmanns og fósturs. Rannsóknir benda til þess að hávaði í umhverfi barnshafandi konu geti haft áhrif á heyrn barnsins síðar meir, sérstaklega lágtíðnihljóð. Jafnframt að langvarandi hávaði í umhverfinu geti valdið hækkun á blóðþrýstingi (7).

Líffræðilegir þættir

Líffræðilegir þættir geta haft áhrif á þungun og líðan flugfreyjunnar. Ógleði hrjáir margar konur á fyrstu vikum meðgöngu og ef um mikla ógleði er að ræða ætti flugfreyjan að ráðfæra sig við lækni eða ljósmóður. Á meðgöngu eykst storknunnar tilhneiging blóðsins m.a. vegna hærra magns estrógens hórmóns í blóði. Barnshafandi flugfreyjur eru því í aukinni hættu að þróa með sér blóðtappa. Algengast er að blóðtappi myndist í fótleggjum en langar stöður með tilheyrandi blóðsöfnun í bláæðum eru óæskilegar sérstaklega fyrir konur sem eiga ættarsögu um blóðtappa (7).

Súrefnismagn í 35.000 feta hæð er sambærilegt við súrefnismagn í 8.000 fetum. Flestir geta unnið í svo þunnu lofti en þungaðar flugfreyjur og sérstaklega þær sem þjást af blóðskorti geta fundið fyrir súrefnisskorti um borð. Einkennin eru: höfuðverkur, ógleði, aukin þreyta og svimi (7). Flugreyjur sem hafa misst fóstur, átt í erfiðleikum með að verða barnshafandi eða hafa upplifað erfiðleika á fyrri meðgöngum ættu að ráðfæra sig við lækni eða ljósmóður hvort æskilegt sé að halda áfram að fljúga eftir að þungun er staðfest.

Lokaorð Þungun er ekki sjúkdómur heldur eðlilegur hluti lífsins. Heilbrigði og öryggi þungaðra kvenna er tryggt með reglum vinnueftirlitsins en eiga því miður ekki við í háloftunum. Það er því alltaf verðandi móðir sem þarf að taka upplýsta ákvörðun hvað er fóstrinu og henni sjálfri fyrir bestu á meðgöngu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl, Ásta Kristín.

Rakst á bloggfærslur þínar um heilsufar og líðan flugfreyja/flugþjóna.

Starfaði sjálfur við flug yfir 40 ár og kannast af eigin raun við flest sem þú nefnir - nema meðgöngu.

Ég þakka bæði fróðleik og ábendingar.

Bestu kveðjur,

Guðl. 

Gudlaugur Helgason 4.10.2018 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband