Er þunglyndi meðal flugmanna eitthvað leyndarmál?

 Hið sorglega flugslys sem átti sér stað í frönsku ölpunum hinn 25. ars 2015 vakti upp þá spurningu hvort flugmenn skuli vera við störf ef þeir eiga við þunglyndi eða geðsjúkdóma að stríða. Eins og staðfest var þjáðist aðstoðarflugmaðurinn í ofangreindu slysi af alvarlegu þunglyndi með sjálfsvígshugsunum.

Flugmenn bera margfalda ábyrgð á lífi annarra í starfi sínu. Sama gildir reyndar um ýmsar aðrar starfsstéttir sem sinna ábyrgðafullum störfum þar sem mannslíf eru í hættu ef starfinu er ekki sinnt sem skyldi. Þótt flugmaður þjáist af þunglyndi þýðir það þó ekki að hann sé þar með óhæfur til vinnu með ábyrgð á mannslífum. Ræðst það af ástandi hans hverju sinni hvort af honum eða sjúkdómsástandi hans stafar hætta.

Andlega veika einstaklinga er finna innan allra stétta og á öllum aldri. Konur eru að vísu tvisvar sinnum líklegri en karlmenn með að þróa með sér þunglyndi. Á Íslandi þjást um það bil 12-18 þúsund manns af þunglyndi á hverjum tíma. Fjölmargir sem eiga við geðsjúkdóma að stríða reyna að fela veikindi sín því fordómar hér á landi eru enn mjög algengir. Mannleg samkennd og ábyrgðartilfinning víkur mjög seint fyrir geðrænum truflunum frá sjónarhóli þess veika.

Þrátt fyrir algengi geðrænna sjúkdóma er það hins vegar afar fátítt að slík vandamál skapi alvarlegt hættuástand og enn síður að það leiði til slyss. En á meðan líkur á svo alvarlegum vanda eru til staðar þá er nauðsynlegt að gera það sem í mannlegu valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að hann leiði til skelfilegra afleiðinga. Truflun eins og sú sem virðist hafa leitt til tortímingar Germanwings 4U 9525 verður að teljast afar sjaldgæf.

Bandarískir vísindamenn rannsökuðu á árunum 1956- 2012 tíðni flugslysa sem sem hægt er að rekja til sjálfsvíga hjá flugmönnum. Niðurstöðurnar sýna að sjálfsvíg voru orsakavaldur í innan við 1% flugslysa þar í landi (24/7,244 tilfella). Í þeim tilfellum sem slíkt gerðist var oftast um unga flugmenn (karla) að ræða og einkennandi var að flest slysin urðu á tímabilinu október-mars. Algengast var í þessum sjálfsvígsflugum að flugvélunum var flogið á fjall, opin svæði, vatn eða byggingar. Flugmennirnir áttu það sameiginlegt að eiga við persónluleg vandamál að stríða, þeir voru annað hvort einhleypir, fráskyldir eða ekklar. Þunglyndi og geðræn vandamál fylgja oft í kjölfar slíkra áfalla.

Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) tilkynntu í apríl 2010 að þau myndu taka til greina og veita undanþágu flugmönnum er vegna vægs til miðlungs þunglyndis tækju inn þunglyndislyf. Gátu flugmenn nú farið fram á leyfi til starfa þrátt fyrir notkun eftirfarandi fjögurra þunglyndislyfja: Fluoxetine (Prozac), Sertraline (Zoloft), Citalopram (Celexa) eða Escitalopram (Lexapro.Fram til ársins 2010 hafði öll lyfjameðferð vegna þunglyndis kostað flugmenn starfið.

Hvernig er hægt að fyrirbyggja flugslys af þessum toga?

Fyrst og fremst þarf að efla skimun fyrir geðsjúkdómum hjá flugmönnum. Hingað til hafa flugmenn svarað skriflega spurningum er varða andlega líðan í reglubundnum læknisskoðunum. Trúlega er sú skimun of takmörkuð til þess að greina andlega líðan, hvað þá geðsjúkdóma. Með skriflegum svörum getur flugmaðurinn falið líðan sína, meðvitað eða ómeðvitað. Slíkt er mun erfiðara að fela í viðtali við þjálfaðan sérfræðing. Flugmenn geta, eins og allir aðrir, leitað til almennra geðlækna, fengið greiningu á sjúkdómsástandi sínu og viðeigandi meðferð ef þess þarf. Allar upplýsingar sem fást við slíka rannsókn eru skráðar í sjúkraskrá. Upplýsingarnar eru þar aðgengilegar öllum þeim meðferðaraðilum sem hafa til þess fyrirfram skilgreindan aðgang þegar þess er þörf, innan viðkomandi stofnunar.

Ef flugmaður er greindur með geðsjúkdóm (sama hver sú greining er) á samkvæmt gildandi reglum að tilkynna sjúkdómsgreininguna til yfirlæknis Samgöngustofu(áður Flugmálastjórn). Þar er tilkynningaskyldan ofar þagnarskyldu læknis. Yfirlæknir metur síðan hvort erindið þurfi að fara lengra. Ef geðlyfi er ávísað á flugmann er honum skylt að tilkynna lyfjameðferðina til yfirlæknis því flugmaðurinn þarf undanþágu til starfa við slíkar aðstæður. Mörg geðlyf eru leyfileg fyrir starfandi flugmenn. Ef geðlæknir sem hefur flugmann í meðferð, telur að hann sé ekki fær um að sinna starfi sínu sökum vanlíðunar og almannaheill gæti hugsanlega verið stefnt í voða, ber honum að tilkynna það til flugmálayfirvalda. (Hér er átt við alvarleg veikindi sem geta leitt til sjálfvígstilrauna).

Engin slík tilkynning barst í tilfelli þýska flugmannsins enda eru reglur í Þýskalandi stífari en hér á landi varðandi þagnarskyldu lækna, þrátt fyrir ógn við almannaheill. Trúlega verða þær reglur endurskoðaðar í kjölfar hörmunganna.


Lög um vinnuvernd fyrir flugfreyjur og- þjóna

Flugfreyju og –þjónastarfið er skemmtilegt og fjölbreytt starf þar sem engin flugferð er eins. Vinnufélagarnir eru upp til hópa frábærir og ekki spillir fyrir að í starfinu gefst kostur á að ferðast víða um heim. Það kemur því ekki á óvart að fólk með ólíkan bakgrunn sæki í starfið sem hefur lengi fylgt ákveðinn ævintýraljómi. Lítið er hins vegar rætt um erfiðar starfsaðstæður og þá staðreynd að starfsumhverfi okkar er með versta móti. Samkvæmt Business Insider UK eru vinnuaðstæður flugfreyja og – þjóna í öðru sæti yfir verstu starfsaðstæður í hinum vestræna heimi og eru starfsmenn kjarnorkuvera til samanburðar í 14. sæti. (sjá http://uk.businessinsider.com/the-most-unhealthy-jobs-in-america-2015-11?r=US&IR=T%2F#1-dentists-dental-surgeons-and-dental-assistants-27)

Við mat á starfsumhverfi flugfreyja og- þjóna vegur þungt það geislamagn sem flugáhafnir verða fyrir í flugi og hversu útsett við erum fyrir sýkingum, smitsjúkdómum og mengun um borð. Skal því engan undra að flugáhafnir flokkist sem geislastarfsmenn og verði fyrir meiri geislun en t.d. geislafræðingar á sjúkrahúsum og starfsmenn kjarnorkuvera. Samkvæmt nýlegri bandarískri rannsókn fá flugfreyjur og -þjónar allt að fjórum sinnum oftar kvef en aðrar starfsstéttir og margir eru með krónískt lungnakvef. Rannsóknir sýna jafnframt að flugfreyjur eru líklegri en aðrar konur að þróa með sér krabbamein í brjósti, legi eða eggjastokkum sem rekja má til geimgeislunar. Þá eru stoðkerfisverkir og meiðsli algengari hjá flugfreyjum og -þjónum en öðrum starfsstéttum sem rekja má til síendurtekinna hreyfinga í starfi, vinnuaðstöðu og vinnuálags.

 Hvaða lög og reglur gilda um vinnuumhverfi flugfreyja og-þjóna?

Í kafla 6 í lögum um loftferðir (60/1998) er fjallað um vinnuumhverfi áhafna um borð og hefur Samgöngustofa eftirlitsskyldu. Í Vinnuverndarlögunum (lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum 46/1980) sem ná til allra starfsmanna á landi sinnir Vinnueftirlitið hins vegar eftirliti. Þegar lögin eru borin saman hallar mjög á flugáhafnir oft því miður á kostnað heilsu þeirra. Flugrekendum ber að fara eftir lögum og því er mikilvæg að lögin tryggi öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. Brýnt er að endurskoða lögin og tryggja flugáhöfnum nauðsynlega vinnuvernd og þar getur öflugt stéttarfélag skipt sköpum til að þrýsta á um úrbætur. Jafnframt er nauðsynlegt að efla forvarnir meðal flugfreyju og –þjónahópsins því þannig má að hluta fyrirbyggja heilsufarsskerðingu sem rekja má til starfstengdrasjúkdóma og slysa.

Með reglulegum rannsóknum má safna mikilvægum gögnum um helstu hættur í vinnuumhverfinu og atvinnutengda sjúkdóma í okkar röðum og nota til úrbóta. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og ætti öryggi og heilbrigði félagsmanna að vera stór þáttur í starfi stéttarfélagsins okkar. Tímabært er að stofna heilbrigðisnefnd sem vinnur markvisst að heilsuvernd stéttarinnar og gefa heilsu félagsmanna aukið vægi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband