Stoðkerfisverkir meðal íslenskra Flugfreyja og - þjóna.

Í apríl 2015 var gerð rannsókn á tíðni og helstu orsökum stoðkerfisverkja meðal fastráðinna flugfreyja og -þjóna hjá Icelandair, flugfélaginu WOW og Flugfélagi Íslands. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að meta áhrif vinnutengdra þátta sem geta leitt til stoðkerfisverkja. Jafnframt voru kannaðir streituvaldandi þættir og viðhorf til starfshlutfalls.

Spurningalistinn var settur inn á samskiptamiðilinn Facebook og inn á lokaðar netsíður þar sem stór hluti félagsmanna Flugfreyjufélags Íslands eru skráðir. Um hentugleikaúrtak er því að ræða þar sem fólk fylgist misvel með því sem þar fer fram og ekki eru allir félagsmenn að nota Facebook. Alls svöruðu 231 þátttakendur, þar af voru 215 konur (95 %) og 11 karlar (5 %). Mikill munur var á svarhlutfalli eftir flugfélögum, hlutfallslega svöruðu flestir frá Icelandair eða 46% af 489 fastráðnum flugfreyjum og – þjónum. Meðalstarfsaldur þátttakenda voru 17 ár og reyndust nokkur svör ónothæf, aðallega frá lausráðnum þátttakendum. Spurningalistinn var hannaður sérstaklega fyrir þessa rannsókn og byggir á sambærilegum erlendum rannsóknum um stoðkerfisverki og líðan í starfi. Spurningalistinn var forprófaður tvisvar sinnum til að tryggja áreiðanleika og var tekið tillit til athugasemda flugfreyja og –þjóna eftir því sem við átti.

Niðurstöður

Niðurstöður leiða í ljós að helmingur íslenskra flugfreyja og –þjóna sem svöruðu könnuninni fann fyrir stoðkerfisverkjum síðastliðna 12 mánuði. Þegar spurt var um tíðni verkjana fundu rúmlega 69% þátttakenda verki síðastliðna 30 daga, þar af 29% daglega. Verkirnir voru algengastir í hálsi, hnakka, herðum og öxlum. Fimmtungur aðspurða höfðu tekið sér veikindafrí vegna verkja og höfðu átta einstaklingar verið frá vinnu tvo mánuði eða lengur. Helstu orsakir verkja að mati þátttakenda voru síendurteknar hreyfingar í starfi, erfið vinnuaðstaða og mikið vinnuálag. Um fimmtungur töldu verkina hverfa á frívakt en tveir þriðju (67% ) fundu hins vegar fyrir verkjum bæði í vinnu og frítíma. Um helmingur þátttakenda töldu að verkirnir hefðu áhrif á vinnu þeirra um borð og vegna verkja reyndu þeir meðal annars að komast hjá erfiðum og sársaukafullum hreyfingum og vildu að vinnuvaktinni lyki sem fyrst. Þá taldi rúmlega helmingur þátttakenda að stoðkerfisverkir gætu flýtt fyrir starfslokum þeirra. Helmingur þátttakenda töldu að tilfinningar hefðu ekki áhrif á stoðkerfisverkina en 36% töldu að svo væri. Erlendar rannsóknir sýna að tengsl séu milli verkja og tilfinninga (5). Það sem getur haft áhrif á tilfinningalíf og þar með aukið verki, eru langar vinnuvaktir, ókyrrð á flugi, fjarvistir við maka og börn á mikilvægum dögum ( jól, áramót,afmæli). Hjónabandserfileikar, samskiptaerfiðleikar og því geta ekki ráðið vinnuskipulagi né vinnhraða um borð (6).

Starfstengd streita virðist algeng hjá stéttinni en meira en þrír af hverjum fjórum þátttakendum fundu fyrir streitu. Helstu ástæður voru: mikill starfshraði, vöntun á fimmtu freyjunni og síauknar kröfur í starfi. Um 73% töldu starfið vera erfitt (frekar erfitt eða mjög erfitt) og um helmingur svarenda taldi sig úrvinda eftir vinnudaginn. Eins og í fyrri rannsóknum (1,2) telja flugfreyjur og -þjónar sig almennt ánægða með lífið og hamingjusama. Tæpur helmingur hefur áhuga á að minnka við sig starfshlutfall og voru fjölskylduaðstæður og þreyta helsta ástæðan. Meirihlutinn eða um 80% þátttakenda höfðu áhyggjur af heilsu sinni vegna vinnutengdra aðstæða, svo sem ónógum svefn, erfiðum vinnuaðstæðum, auknu vinnuálagi og geimgeislun. Umræða Rannsóknin sýnir að líkamlegir verkir tengdir álagi eru algengir meðal íslenskra flugfreyja og -þjóna en aðeins 7% íslenskra flugfreyja og -þjóna telja sig vera án stoðkerfisvandamála. Er það í samræmi við erlendar rannsóknir sem jafnframt benda til að mjóbaksvandamál séu meðal algengustu stoðkerfisvandamála meðal stéttarinnar (3,4).

Niðurstöðurnar sýna að ýmislegt má betur fara og þurfa atvinnurekendur að huga að frekari forvörnum. Meðal þess sem atvinnurekandinn getur gert til þess að sporna við stoðkerfisvandamálum er fræðsla um líkamsbeitingu í þröngu rými sem er oftast á hreyfingu og í 3-5 gráðu halla. Með reglulegri fræðslu til starfsfólks má draga úr fjarvistum, koma í veg fyrir kulnun í starfi og síðast en ekki síst veita fólki líkamlega vellíðan við störf sín.

Leggja þyrfti aukna áherslu á að fylgja líkamsklukku við skráargerð og tryggja starfsmönnum næga hvíld eftir lengri flug yfir mörg tímabelti. Jafnframt mætti hvetja og styrkja starfsmenn til reglulegrar hreyfingar því öll hreyfing stuðlar að slökun, losun spennu, byggir upp vöðva. Allt þetta stuðlar þetta að sterkari stoðkerfi og þar með færri stoðkerfisvandamálum.

Það vekur athygli að um helmingur þátttakenda vill minnka við sig starfshlutfall og geta ýmsar ástæður legið þar að baki. Störf hjúkrunarfræðinga og flugfreyja og -þjóna eru að mörgu leyti lík en miklar kröfur eru gerðar um faglega færni og ábyrgð í starfi. Fjölmargir þættir geta haft áhrif á þol og getu beggja starfsstétta til að sinna vaktavinnu, svo sem fjölskylduaðstæður, ung börn, aðstæður til hvíldar fyrir og eftir vinnuvakt, vinnuumhverfi og síðast en ekki síst heilsufar starfsmanna.

Það er því áhugavert að meðalstarfshlutfall íslenskra hjúkrunarfræðinga skuli vera um 80% og þar sé viðurkennt að fullt starf sé of mikið, sérstaklega ef viðkomandi hefur öðrum skyldum að gegna.

Af hverju þarf að gera rannsóknir á flugfreyjum og -þjónum? Takmarkaðar rannsóknir eru til á íslenskum flugfreyjum og –þjónum og því lítið vitað um langtímaáhrif á heilsu okkar. Flugleiðir okkar eru til að mynda nokkuð frábrugnar öðrum flugfélögum þar sem við fljúgum norðlægari slóðum en flestir og því mikilvægt að vita hvaða áhrif það hefur til lengri tíma litið. Í dag eru flugáhafnir að mestu undanþegnar verndun Vinnulöggjafarinnar sem á að tryggja aðbúnað starfsmanna, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum en því er hægt að breyta. Rannsóknir eru besta leiðin til þess að skapa þekkingu, með reglulegum rannsóknum má safna dýrmætum upplýsingum sem nota má til að bæta heilsu, líðan og vinnuaðstæður flugfreyja og -þjóna.

Að lokum langar mig til þess að benda áhugasömum á grein um stoðkerfisvandamál hjá flugfreyjum og -þjónum

(raðað eftir númerum)

1. Gunnarsdottir, A (2013). Starfstengd þreyta meðal flugþjónustuliða. Áhrifaþættir þreytu og afleiðingar hennar. Lokaverkefni til meistaraprófs í hjúkrunarfræði. Háskóli Íslands

2. Herdís Sveinsdóttir, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir og Hildur Friðriksdóttir (2000). Heilsufar,líðan og vinnuumhverfi flugfreyja. Rannsóknarstofnun í hjúkrunarfræði. Háskóli Íslands.

3. Lee, H., Wilbur, J., Conrad, K. M., & Miller, A. M. (2006). Risk Factors Associated with Work-Related Musculoskeletal Disorders among Female Flight Attendants Using a Focus Group to Prepare a Survey. AAOHN Journal, 54(4), 154-164

4. Glitsch, U., Ottersbach, H. J., Ellegast, R., Schaub, K., Franz, G., & Jäger, M. (2007). Physical workload of flight attendants when pushing and pulling trolleys aboard aircraft. International Journal of Industrial Ergonomics, 37(11), 845-854.

5. Harrington, J. M. (2001). Health effects of shift work and extended hours of work. Occupational and Environmental medicine, 58(1), 68-72 6. Lee, H., Wilbur, J., Kim, M. J., & Miller, A. M. (2008). Psychosocial risk factors for work‐related musculoskeletal disorders of the lower‐back among long‐haul international female flight attendants. Journal of advanced nursing, 61(5), 492-502.


Heilsa og líðan flugfreyja og-þjóna miðað við aðrar starfsstéttir

Flugþjónustliðar eru ein þeirra stétta sem hefur langan starfsaldur. Langur starfsaldur telst í flestum tilfellum jákvæður en tíðni sjúkdóma sem tengja má við starfsumhverfið eykst í takt í hlutfalli við hækkandi starfsaldur flugþjónustuliða. Hér er ekki átt við slit á liðum (axlar, olnboga, úlnliði né mjaðmaliði) sem flugþjónustliðar finna fyrir sökum síendurtekinna handtaka í starfi né eymsli í baki sem í mörgum tilfellum er hægt að tengja við langar stöður og stellingar meðan á flugvakt stendur.

Niðurstöður rannsóknar sem gerð var árið 2013 á þverskurði bandarískra flugþjónustuliða kom í ljós að þeir eru í meiri áhættu að þróa með sér krónískt lungnakvef en viðmiðunarhópur sem var þverskurður almennings í Bandaríkjunum (National Health and Nutrion Survey). Í þeirri rannsókn kom í ljós að flugþjónar (kk) eru í 3,5 sinnum meiri hættu að þróa með sér lungnakvef meðan flugfreyjur (kvk) eru 2,75 sinnum líklegri að gera slíkt hið sama. Flugþjónustliðarnir sem hér um ræðir voru ekki líklegri en viðmiðunarhópurinn að vera með lungnasjúkdóma né reykja. Tíðni lungnakvefsins jókst með hækkandi starfsaldri.

Flugfreyjur eru líklegri en kynsystur sínar að þróa með sér krabbamein í brjósti, legi eða eggjastokkum en þessar niðurstöður hafa áður komið fram í öðrum sambærilegum rannsóknum. Flugfreyjurnar eru 3,5 sinnum líklegri en aðrar konur að þróa með sér hjarta og æðasjúkdóma, þrátt fyrir lægri BMI stuðul (Body Mass Index), minni reykingar og eðlilegan blóðþrýsting miðað við aldur. Hvað flugþjónanna varðar var sambærileg tíðni hjarta og æðasjúkdóma og karlmönnum í viðmiðunnarhóp Tíðni húðkrabbameins, hjarta og æðasjúkdóma hélst í hendur við hækkandi starfsaldur hjá bæði flugfreyjum og þjónum en tíðni krabbameins í brjósti, legi og eggjastokkum hjá flugfreyjum eykst ekki við hækkandi starfsaldur þeirra.

Ástæða aukinnar tíðni hjarta og æðasjúkdóma má meðal annars rekja til stöðugri tilfærslu svefn og vöku í morgun, kvöld – og næturflugum með tilheyrandi röskun á líkamsklukkunni en slíkar tilfærslur valda margvíslegri andlegri og líkamlegri truflun. Svefnerfiileikar eru algengir hjá flugþjónustuliðum og talið er að þriðji hver flugþjónustuliði þjáist af svefntengdu vandamáli. Ef miðað er við almenning þá er vandamálið 5,7 sinnum algengara hjá flugfreyjum og 3,7 sinnum algengari hjá flugþjónum.

Í íslenskri rannsókn sem gerð var á flugþjónustuliðum kom í ljós að stór hópur á erfitt með að sofna , viðhalda svefni og sofa of stutt að nóttu til sérstaklega ef um morgunflug var að ræða næsta dag. Margir flugþjónustuliðar telja sig stöðugt vera í svefnskuld sökum þessa. Flugþjónar (kk) eru helmingi þreyttari en viðmiðunnarhópurinn og tæplega sex sinnum líklegri en aðrir karlmenn að finna fyrir þunglyndi og depurð nær daglega.

Flugfreyjur (kvk) voru helmingi líklegri en kynsystur sínar að finna fyrir þreytu og þunglyndi. Þessar niðurstöður vekja athygli sökum alvarleika en áhugavert væri að rannsaka ástæður þessa mikla þunglyndis hjá stéttinni. Alvarleiki felst í því að í umræddri rannsókn er verið að bera saman flugþjónustuliða við þverskurð einstaklinga en í þeim hópi voru bæði heilbrigðir og óheilbrigðir, atvinnulausir, fátækir og einstaklinga sem búa við misjafnar aðstæður.

Þessar niðurstöðurnar eru ekki í hag flugþjónustuliða. Heilsueftirlit er reglubundið hjá flugþjónustuliðum og er það vel, en lítið ber á að skimað sé eftir atvinnutengdum skaða svo sem heyrnarmælingar, en sú mæling ætti að vera jafn sjálfsögð og sjónskoðun eða mæling á blóðþrýstingi. Skert heyrn getur verið ógn við öryggi því flugþjónustuliðar eru fyrst og fremst öryggisverðir um borð.

Án efa velta flugþjónustliðar fyrir sér hvað þeir sjálfir geti gert til þess að minnka atvinnutengda sjúkdóma. Fátt er um svör því flugþjónustuliðar hafa lítil sem engin áhrif á þá þætti sem hafa áhrif á heilsu þeirra um borð svo sem, loftgæði um borð, kulda í eldhúsum, hávaða né þá geimgeislun sem þeir verða fyrir í starfi. Fræðsla og reglubundin skimun fyrir atvinnutengda sjúkdóma er helsta vopnið í höndum flugþjónustuliða.

Í ljósi þessara niðurstaðna er þarft að gefa andlegri líðan flugþjónustuliða meiri gaum því seint verður talið eðlilegt að flugfreyjur séu helmingi þunglyndari en kynsystur sínar og flugþjónar finni sex sinnum oftar fyrir þunglyndi og depurð en þverskurður karlmanna í samfélaginu. Það segir okkur kæri lesandi að frekari rannsókna er þörf á málefninu.


Þurra loftið um borð í flugvélum

Líkaminn reynir að halda í þann vökva sem er í líkamanum sem lýsir sér meðal annars í því að þvaglát verða minni eða jafnvel engin meðan á flugi stendur. Eftir því sem minna er drukkið verður þvagið dekkra en það er oft góð vísbending á vökvaskort. Undir eðlilegum kringumstæðum jafnar líkaminn sig á vökvaskortinum eða á milli flugferða. Bjúgsöfnun er oft merki um vökvaskort en það er leið líkamans að halda í þann vökva sem tilstaðar er í líkamanum.

Sérfræðingar I heilsu flugáhafna benda á nauðsyn þess að flugþjónustuliðar auki fituinntöku til þess meðal annars að vinna á móti fitu- og vökvatapi sem verður við útöndun og mæla þá sérstaklega með 3 matskeiðum af Flax Seed olíunni fyrir flug.

Samkvæmt niðurstöðum bandarískrar rannsóknar þjáðst fjölmargir fljúgþjónustuliðar af þurrki (e.dehydration) algengusta líkamlega einkennið sem flugþjónustuliðar kvarta undan er þurr húð, sem rekja má til lágs raka í vinnuumhverfi þeirra. Rakinn í andrúmlofti flugvéla á flugi er milli 1%-15%, lægst er það í flugstjórnarklefanum eða allt niður í 1%.

Rakinn getur aukist lítilega við fjölda drykkja farþega meðan á drykkjaþjónustu stendur og vegna áhalda sem innihalda vökva svo sem ísfötur og djúskönnur. Til viðmiðunar er rakamagn í andrúmslofti 78%-82%, (í rigningu er það 100%), innanhús er það á bilinu 40-45% en til gaman má geta þess að í Sahara eyðimörkinni mælist rakinn 20%. Við þær þurru aðstæður sem ríkja um borð, missa flugþjónustuliðar um það bil 60-120 ml. af raka á klukkustund. Ef miðað við lægri viðmiðin getur flugþjónustuliði sem flýgur sjö klukkustunda flug (SEA/DEN) misst allt að 420 ml af vökva á einum fluglegg.

Rakinn tapast í gegnum lungun við útöndun og gegnum húðina í formi svita. Við rakatapið sem verður við útöndun getur einnig tapast lífsnauðsynleg fita (e.lung surfactant) en sú fita þekur lungun að innan og er lífsnauðsynleg við þenslu lungnanna. Þurra loftið hefur einnig slæm áhrif á slímhúð augna sem lýsir sér með augnþurrki, tárvot augu, tárarennsli, kláða og slímhúð í efri öndunarvegi sem oft lýsir sér með nefstíflu, og það sem flestir flugþjónustuliðar kvarta undan þurrk í hársverði og húð.

Eitt einkenni vökvaskorts er þurr munnur, varir, og augu, oftast fylgir þorstatilfinning í kjölfarið. Miðað við það þurra loft sem flugþjónustuliðar vinna við er hætta á að þeir geti oriðið fyrir hægfara vökvaskorti, ef ekki vökvainntekt er ekki næganleg.

Það er mjög mikilvægt að f bæta upp vökvatapið sem verður á flugi með því að drekka vel meðan og eftir flug. Hér er ekki átt við að flugþjónustuliðinn þambi vatn, heldur drekki jafnt og þétt meðan á flugferð stendur. Besti drykkurinn er vatn, Vatnslosandi drykkir svo sem koffein drykki ætti að forðast, þeir ýta undir enn frekari vökvatap.


Bloggfærslur 9. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband