Heilsa og líðan flugfreyja og-þjóna miðað við aðrar starfsstéttir

Flugþjónustliðar eru ein þeirra stétta sem hefur langan starfsaldur. Langur starfsaldur telst í flestum tilfellum jákvæður en tíðni sjúkdóma sem tengja má við starfsumhverfið eykst í takt í hlutfalli við hækkandi starfsaldur flugþjónustuliða. Hér er ekki átt við slit á liðum (axlar, olnboga, úlnliði né mjaðmaliði) sem flugþjónustliðar finna fyrir sökum síendurtekinna handtaka í starfi né eymsli í baki sem í mörgum tilfellum er hægt að tengja við langar stöður og stellingar meðan á flugvakt stendur.

Niðurstöður rannsóknar sem gerð var árið 2013 á þverskurði bandarískra flugþjónustuliða kom í ljós að þeir eru í meiri áhættu að þróa með sér krónískt lungnakvef en viðmiðunarhópur sem var þverskurður almennings í Bandaríkjunum (National Health and Nutrion Survey). Í þeirri rannsókn kom í ljós að flugþjónar (kk) eru í 3,5 sinnum meiri hættu að þróa með sér lungnakvef meðan flugfreyjur (kvk) eru 2,75 sinnum líklegri að gera slíkt hið sama. Flugþjónustliðarnir sem hér um ræðir voru ekki líklegri en viðmiðunarhópurinn að vera með lungnasjúkdóma né reykja. Tíðni lungnakvefsins jókst með hækkandi starfsaldri.

Flugfreyjur eru líklegri en kynsystur sínar að þróa með sér krabbamein í brjósti, legi eða eggjastokkum en þessar niðurstöður hafa áður komið fram í öðrum sambærilegum rannsóknum. Flugfreyjurnar eru 3,5 sinnum líklegri en aðrar konur að þróa með sér hjarta og æðasjúkdóma, þrátt fyrir lægri BMI stuðul (Body Mass Index), minni reykingar og eðlilegan blóðþrýsting miðað við aldur. Hvað flugþjónanna varðar var sambærileg tíðni hjarta og æðasjúkdóma og karlmönnum í viðmiðunnarhóp Tíðni húðkrabbameins, hjarta og æðasjúkdóma hélst í hendur við hækkandi starfsaldur hjá bæði flugfreyjum og þjónum en tíðni krabbameins í brjósti, legi og eggjastokkum hjá flugfreyjum eykst ekki við hækkandi starfsaldur þeirra.

Ástæða aukinnar tíðni hjarta og æðasjúkdóma má meðal annars rekja til stöðugri tilfærslu svefn og vöku í morgun, kvöld – og næturflugum með tilheyrandi röskun á líkamsklukkunni en slíkar tilfærslur valda margvíslegri andlegri og líkamlegri truflun. Svefnerfiileikar eru algengir hjá flugþjónustuliðum og talið er að þriðji hver flugþjónustuliði þjáist af svefntengdu vandamáli. Ef miðað er við almenning þá er vandamálið 5,7 sinnum algengara hjá flugfreyjum og 3,7 sinnum algengari hjá flugþjónum.

Í íslenskri rannsókn sem gerð var á flugþjónustuliðum kom í ljós að stór hópur á erfitt með að sofna , viðhalda svefni og sofa of stutt að nóttu til sérstaklega ef um morgunflug var að ræða næsta dag. Margir flugþjónustuliðar telja sig stöðugt vera í svefnskuld sökum þessa. Flugþjónar (kk) eru helmingi þreyttari en viðmiðunnarhópurinn og tæplega sex sinnum líklegri en aðrir karlmenn að finna fyrir þunglyndi og depurð nær daglega.

Flugfreyjur (kvk) voru helmingi líklegri en kynsystur sínar að finna fyrir þreytu og þunglyndi. Þessar niðurstöður vekja athygli sökum alvarleika en áhugavert væri að rannsaka ástæður þessa mikla þunglyndis hjá stéttinni. Alvarleiki felst í því að í umræddri rannsókn er verið að bera saman flugþjónustuliða við þverskurð einstaklinga en í þeim hópi voru bæði heilbrigðir og óheilbrigðir, atvinnulausir, fátækir og einstaklinga sem búa við misjafnar aðstæður.

Þessar niðurstöðurnar eru ekki í hag flugþjónustuliða. Heilsueftirlit er reglubundið hjá flugþjónustuliðum og er það vel, en lítið ber á að skimað sé eftir atvinnutengdum skaða svo sem heyrnarmælingar, en sú mæling ætti að vera jafn sjálfsögð og sjónskoðun eða mæling á blóðþrýstingi. Skert heyrn getur verið ógn við öryggi því flugþjónustuliðar eru fyrst og fremst öryggisverðir um borð.

Án efa velta flugþjónustliðar fyrir sér hvað þeir sjálfir geti gert til þess að minnka atvinnutengda sjúkdóma. Fátt er um svör því flugþjónustuliðar hafa lítil sem engin áhrif á þá þætti sem hafa áhrif á heilsu þeirra um borð svo sem, loftgæði um borð, kulda í eldhúsum, hávaða né þá geimgeislun sem þeir verða fyrir í starfi. Fræðsla og reglubundin skimun fyrir atvinnutengda sjúkdóma er helsta vopnið í höndum flugþjónustuliða.

Í ljósi þessara niðurstaðna er þarft að gefa andlegri líðan flugþjónustuliða meiri gaum því seint verður talið eðlilegt að flugfreyjur séu helmingi þunglyndari en kynsystur sínar og flugþjónar finni sex sinnum oftar fyrir þunglyndi og depurð en þverskurður karlmanna í samfélaginu. Það segir okkur kæri lesandi að frekari rannsókna er þörf á málefninu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband