Stoðkerfisverkir meðal íslenskra Flugfreyja og - þjóna.

Í apríl 2015 var gerð rannsókn á tíðni og helstu orsökum stoðkerfisverkja meðal fastráðinna flugfreyja og -þjóna hjá Icelandair, flugfélaginu WOW og Flugfélagi Íslands. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að meta áhrif vinnutengdra þátta sem geta leitt til stoðkerfisverkja. Jafnframt voru kannaðir streituvaldandi þættir og viðhorf til starfshlutfalls.

Spurningalistinn var settur inn á samskiptamiðilinn Facebook og inn á lokaðar netsíður þar sem stór hluti félagsmanna Flugfreyjufélags Íslands eru skráðir. Um hentugleikaúrtak er því að ræða þar sem fólk fylgist misvel með því sem þar fer fram og ekki eru allir félagsmenn að nota Facebook. Alls svöruðu 231 þátttakendur, þar af voru 215 konur (95 %) og 11 karlar (5 %). Mikill munur var á svarhlutfalli eftir flugfélögum, hlutfallslega svöruðu flestir frá Icelandair eða 46% af 489 fastráðnum flugfreyjum og – þjónum. Meðalstarfsaldur þátttakenda voru 17 ár og reyndust nokkur svör ónothæf, aðallega frá lausráðnum þátttakendum. Spurningalistinn var hannaður sérstaklega fyrir þessa rannsókn og byggir á sambærilegum erlendum rannsóknum um stoðkerfisverki og líðan í starfi. Spurningalistinn var forprófaður tvisvar sinnum til að tryggja áreiðanleika og var tekið tillit til athugasemda flugfreyja og –þjóna eftir því sem við átti.

Niðurstöður

Niðurstöður leiða í ljós að helmingur íslenskra flugfreyja og –þjóna sem svöruðu könnuninni fann fyrir stoðkerfisverkjum síðastliðna 12 mánuði. Þegar spurt var um tíðni verkjana fundu rúmlega 69% þátttakenda verki síðastliðna 30 daga, þar af 29% daglega. Verkirnir voru algengastir í hálsi, hnakka, herðum og öxlum. Fimmtungur aðspurða höfðu tekið sér veikindafrí vegna verkja og höfðu átta einstaklingar verið frá vinnu tvo mánuði eða lengur. Helstu orsakir verkja að mati þátttakenda voru síendurteknar hreyfingar í starfi, erfið vinnuaðstaða og mikið vinnuálag. Um fimmtungur töldu verkina hverfa á frívakt en tveir þriðju (67% ) fundu hins vegar fyrir verkjum bæði í vinnu og frítíma. Um helmingur þátttakenda töldu að verkirnir hefðu áhrif á vinnu þeirra um borð og vegna verkja reyndu þeir meðal annars að komast hjá erfiðum og sársaukafullum hreyfingum og vildu að vinnuvaktinni lyki sem fyrst. Þá taldi rúmlega helmingur þátttakenda að stoðkerfisverkir gætu flýtt fyrir starfslokum þeirra. Helmingur þátttakenda töldu að tilfinningar hefðu ekki áhrif á stoðkerfisverkina en 36% töldu að svo væri. Erlendar rannsóknir sýna að tengsl séu milli verkja og tilfinninga (5). Það sem getur haft áhrif á tilfinningalíf og þar með aukið verki, eru langar vinnuvaktir, ókyrrð á flugi, fjarvistir við maka og börn á mikilvægum dögum ( jól, áramót,afmæli). Hjónabandserfileikar, samskiptaerfiðleikar og því geta ekki ráðið vinnuskipulagi né vinnhraða um borð (6).

Starfstengd streita virðist algeng hjá stéttinni en meira en þrír af hverjum fjórum þátttakendum fundu fyrir streitu. Helstu ástæður voru: mikill starfshraði, vöntun á fimmtu freyjunni og síauknar kröfur í starfi. Um 73% töldu starfið vera erfitt (frekar erfitt eða mjög erfitt) og um helmingur svarenda taldi sig úrvinda eftir vinnudaginn. Eins og í fyrri rannsóknum (1,2) telja flugfreyjur og -þjónar sig almennt ánægða með lífið og hamingjusama. Tæpur helmingur hefur áhuga á að minnka við sig starfshlutfall og voru fjölskylduaðstæður og þreyta helsta ástæðan. Meirihlutinn eða um 80% þátttakenda höfðu áhyggjur af heilsu sinni vegna vinnutengdra aðstæða, svo sem ónógum svefn, erfiðum vinnuaðstæðum, auknu vinnuálagi og geimgeislun. Umræða Rannsóknin sýnir að líkamlegir verkir tengdir álagi eru algengir meðal íslenskra flugfreyja og -þjóna en aðeins 7% íslenskra flugfreyja og -þjóna telja sig vera án stoðkerfisvandamála. Er það í samræmi við erlendar rannsóknir sem jafnframt benda til að mjóbaksvandamál séu meðal algengustu stoðkerfisvandamála meðal stéttarinnar (3,4).

Niðurstöðurnar sýna að ýmislegt má betur fara og þurfa atvinnurekendur að huga að frekari forvörnum. Meðal þess sem atvinnurekandinn getur gert til þess að sporna við stoðkerfisvandamálum er fræðsla um líkamsbeitingu í þröngu rými sem er oftast á hreyfingu og í 3-5 gráðu halla. Með reglulegri fræðslu til starfsfólks má draga úr fjarvistum, koma í veg fyrir kulnun í starfi og síðast en ekki síst veita fólki líkamlega vellíðan við störf sín.

Leggja þyrfti aukna áherslu á að fylgja líkamsklukku við skráargerð og tryggja starfsmönnum næga hvíld eftir lengri flug yfir mörg tímabelti. Jafnframt mætti hvetja og styrkja starfsmenn til reglulegrar hreyfingar því öll hreyfing stuðlar að slökun, losun spennu, byggir upp vöðva. Allt þetta stuðlar þetta að sterkari stoðkerfi og þar með færri stoðkerfisvandamálum.

Það vekur athygli að um helmingur þátttakenda vill minnka við sig starfshlutfall og geta ýmsar ástæður legið þar að baki. Störf hjúkrunarfræðinga og flugfreyja og -þjóna eru að mörgu leyti lík en miklar kröfur eru gerðar um faglega færni og ábyrgð í starfi. Fjölmargir þættir geta haft áhrif á þol og getu beggja starfsstétta til að sinna vaktavinnu, svo sem fjölskylduaðstæður, ung börn, aðstæður til hvíldar fyrir og eftir vinnuvakt, vinnuumhverfi og síðast en ekki síst heilsufar starfsmanna.

Það er því áhugavert að meðalstarfshlutfall íslenskra hjúkrunarfræðinga skuli vera um 80% og þar sé viðurkennt að fullt starf sé of mikið, sérstaklega ef viðkomandi hefur öðrum skyldum að gegna.

Af hverju þarf að gera rannsóknir á flugfreyjum og -þjónum? Takmarkaðar rannsóknir eru til á íslenskum flugfreyjum og –þjónum og því lítið vitað um langtímaáhrif á heilsu okkar. Flugleiðir okkar eru til að mynda nokkuð frábrugnar öðrum flugfélögum þar sem við fljúgum norðlægari slóðum en flestir og því mikilvægt að vita hvaða áhrif það hefur til lengri tíma litið. Í dag eru flugáhafnir að mestu undanþegnar verndun Vinnulöggjafarinnar sem á að tryggja aðbúnað starfsmanna, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum en því er hægt að breyta. Rannsóknir eru besta leiðin til þess að skapa þekkingu, með reglulegum rannsóknum má safna dýrmætum upplýsingum sem nota má til að bæta heilsu, líðan og vinnuaðstæður flugfreyja og -þjóna.

Að lokum langar mig til þess að benda áhugasömum á grein um stoðkerfisvandamál hjá flugfreyjum og -þjónum

(raðað eftir númerum)

1. Gunnarsdottir, A (2013). Starfstengd þreyta meðal flugþjónustuliða. Áhrifaþættir þreytu og afleiðingar hennar. Lokaverkefni til meistaraprófs í hjúkrunarfræði. Háskóli Íslands

2. Herdís Sveinsdóttir, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir og Hildur Friðriksdóttir (2000). Heilsufar,líðan og vinnuumhverfi flugfreyja. Rannsóknarstofnun í hjúkrunarfræði. Háskóli Íslands.

3. Lee, H., Wilbur, J., Conrad, K. M., & Miller, A. M. (2006). Risk Factors Associated with Work-Related Musculoskeletal Disorders among Female Flight Attendants Using a Focus Group to Prepare a Survey. AAOHN Journal, 54(4), 154-164

4. Glitsch, U., Ottersbach, H. J., Ellegast, R., Schaub, K., Franz, G., & Jäger, M. (2007). Physical workload of flight attendants when pushing and pulling trolleys aboard aircraft. International Journal of Industrial Ergonomics, 37(11), 845-854.

5. Harrington, J. M. (2001). Health effects of shift work and extended hours of work. Occupational and Environmental medicine, 58(1), 68-72 6. Lee, H., Wilbur, J., Kim, M. J., & Miller, A. M. (2008). Psychosocial risk factors for work‐related musculoskeletal disorders of the lower‐back among long‐haul international female flight attendants. Journal of advanced nursing, 61(5), 492-502.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband