Með kvíðann í farteskinu

Flestir upplifa einhvers konar kvíða á lífsleiðinni sem er eðlilegt en þegar kvíðinn fer að vera hamlandi er nauðsynlegt að takast á við hann. Sálfræðilegar útskýringar á kvíða má rekja til eðlilegra viðbragða við ógnun eða áreiti og kallast flóttasvörun (fight or flight response). Líkaminn sendir stresshormón út í blóðið sem setur þann hrædda eða kvíðna í viðbragðsstöðu og undirbýr hann fyrir átök. Ekki er endilega átt við átök í bókstaflegri merkingu heldur andleg og líkamleg viðbrögð við tilteknum aðstæðum. Undir eðlilegum kringumstæðum hverfur svo kvíðinn við lok streituvaldsins. Kvíði er því oft nauðsynlegur en má ekki verða það mikill að hann hafi hamlandi áhrif á líf fólks og skerði lífsgæði þess, sbr. flughræðsla. Ef ekki er tekist á við mikinn kvíða getur hann yfirfærst á aðrar aðstæður, magnast og orðið að ofsakvíða og leitt til þunglyndis.

Talið er að 45% einstaklinga í öllum stéttum, finni fyrir kvíða einhvern tímann á ævinni. Kvíði er tvöfalt algengari meðal kvenna og mun algengari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum enda eiga Íslendingar norðurlandamet í inntöku á kvíðastillandi lyfjum. Um 12% kvíðinna einstaklinga leitar sér læknisaðstoðar og þá oftast vegna líkamlegra fylgikvilla.

Algengustu líkamlegu einkennin eru:

hjartsláttaköst, andþyngsli, brjóstverkir, þreyta, svimi, aukin svitamyndun kaldar eða rakar hendur, munnþurrkur, tíð þvaglát og kökkur í hálsi.

Helstu andlegu einkennin eru:

svefntruflanir, áhyggjur, óþolinmæði, reiði og einbeitingaskortur.

Kvíðavaldar í starfi flugfreyja- og þjóna Ýmislegt getur valdið kvíða hjá flugfreyjum og -þjónum en það helsta er:

• Þétt vinnuskrá. Dæmi: mörg morgunflug í röð eða lágmarkshvíld eftir USA/CAN og beint í morgunflug.

• Rugl á líkamsklukku. Dæmi: flogið í gegnum mörg tímabelti og sólarhring snúið við.

• Kvíði sem fylgir hræðslunni við að sofa yfir sig fyrir morgunflug

• Svefnóregla og líkamleg- og andleg þreyta

• Óvissa um vinnuskrá og sumar- og vetrarleyfi.

• Fjarvera frá fjölskyldu sér í lagi ungum börnum eða öldruðum/veikum foreldrum.

• Fjarvera á mikilvægum tímamótum svo sem um jól, áramót, fermingar, brúðkaup eða afmæli.

• Ákveðnar flugferðir. Dæmi: löng flug, næturflug og leiguflug.

• Pressa um að komast í loftið á réttum tíma.

• Seinkanir, slæmt veður, færð og bilanir • Hristingur á meðan flugi stendur        („turbulance 1-4“)

• Farþegar. Dæmi: veikir, erfiðir, drukknir, dónalegir og menningarlegur munur.

• Eiga ekki nægan mat fyrir farþega

• Samstarfsfólk (áhafnarmeðlimir, starfsfólk flugstöðva og starfsmenn skrifstofu)

• Starfsmannamat um borð

Kvíði vegna persónulegra aðstæðna getur einnig verið til staðar hjá flugfreyjum- og þjónum. Má þar nefna: fjárhagsáhyggjur, heilsufarsáhyggjur, sambúðarerfiðleikar, áhyggjur af sínum nánustu, óvissa um framtíðina og ýmis konar fælni.

Hvað geta kvíðnar flugfreyjur og þjónar gert?

Mikilvægt er að átta sig á því hvað veldur kvíðanum því þá er hægt að vinna með hann og skoða hvaða úrræði eru í boði.

• Samtalsmeðferð er trúlega áhrifaríkasta meðferðin sem er í boði fyrir. Hún er persónubundin og unnið út frá eðli kvíðans og umfangi. Þeir sem veita slíka meðferð eru geðlæknar, sálfræðingar, geðhjúkrunarfræðingar og sérfræðingar í hugrænni atferlismeðferð (HAM). Samtalstæknin byggir á því að draga úr kvíða einstaklingsins ( t.d. kvíða sem fylgir mörgum morgunflugum í röð) og styrkja hann til að takast á við kvíðavaldandi aðstæður. Ýmislegt getur haft áhrif á meðferðina og svo sem viðhorf og væntingar viðkomandi. Hugræn athyglismeðferð hefur reynst mjög vel til að takast á við kvíða og byggir á því að þjálfa einstaklinga til að takast á við aðstæður sem valda þeim kvíða og læra hvernig er best að bregðast við. Viðtalsmeðferðir taka oft tíma og geta því verið mjög kostnaðarsamar.

• Lyfjameðferð er oft notuð samfara samtalsmeðferðinni eða ein sér. Því miður virðist sem lyfjameðferð sé oft fyrsti kostur hjá mörgum læknum en bestur árangur fæst samhliða samtalsmeðferð. Í lyfjameðferðum eru gefin kvíða- og þunglyndislyf, í daglegu tali nefnd SSRI lyf sem eru af flokki serótóninvirkja lyfja. Lyfin hafa reynst vel við kvíða, þráhyggjuhugsunum, félagsfælni og þegar árráttuatferli er um að ræða. Lyfin auka líkamlega virkni, minnka skapsveiflur og auka áhuga einstaklingsins á daglegu lífi sem eykur lífsgæði margra sem glíma við kvíða eða þunglyndi. Þó lyfin hjálpi ein og sér eða með viðtölum verða aukaverkanir oft til þess að margir hætta inntöku þeirra. Lyfin valda ekki vímu né hafa áhrif á vitræna getu einstaklingsins. Árið 2010 gáfu Bandarík flugmálayfirvöld (FAA) flugmönnum leyfi á inntöku fjögurra kvíða og þunglyndislyfja (Prozac, Zoloft, Celexa, Escitalopram) en fram að því höfðu flugmenn ekki leyfi til þess að nota kvíðastillandi lyf.

• Öll hreyfing vinnur gegn kvíða og þá sérstaklega hreyfing utandyra og í birtu. Birtan sem augað nemur eykur magn Seratónins hormónsins í heilanum en Seratonin er eitt af megin uppstaðan í SSRI geðlyfjum sem draga úr kvíða og þunglyndi. Sólgleraugu geta haft áhrif á birtustigið og dregið úr framleiðslunni.

• Máttur hugans - Þó meðferðirnar sem hér að ofan séu af hinu góða er hægt að hjálpa mörgum með því að tileinka sér bjartsýni. Við höfum alltaf val um að reyna láta hlutina ganga eða gefast upp. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að aukin bjartsýni, jákvæðni og von hjálpar einstaklingum að ganga í gegnum erfiða atburði eða tímabil. Það getur hins vegar reynst erfitt að breyta hugsunum því öll erum við einn vani en bjartsýni er leið til að ná markmiðum sínum með jákvæðum hætti. Þjálfun í bjartsýni gengur meðal annars út frá því að snúa kvíðavaldandi aðstæðum upp í andhverfu sína. Dæmi: flugþjónn kvíðir því að fljúga fimm morgunflug í röð og vera illa hvíldur. Með bjartsýnishugsunum gæti hann einbeitt sér að hugsa „ ég get þetta alveg... ég ætla að mæta hress í flugsins... mig langar til þess að standa mig... ég mun standa mig!“ Þetta hugsunarferli krefst æfingar en þó kannski mest vilja og má gera ráð fyrir að það taki a.m.k. sex vikur að breyta hugsunarhætti.

Lokaorð:

Í nýlegri bandarískri rannsókn kom í ljós að kvíði og þunglyndi er tvöfalt meira meðal flugfreyja og þjóna en meðal almennra borgara. Viðmiðunarhópurinn var þverskurður Bandaríkjamanna og voru veikir, atvinnulausir og fátækir ekki undanskildir sem gerir kvíða flugfreyja og þjóna alvarlegri. Í íslenskri rannsókn á flugfreyjum og -þjónum frá árinu 2013 var kvíði í fjórða sæti yfir 26 atriði sem þátttakendur töldu valda sér vanlíðan í starfi. Áhugavert væri að rannsaka betur kvíða og þunglyndi meðal flugfreyja og -þjóna og hvað hefur þar helst áhrif. Samkvæmt alþjóðaheilbrigðismálastofnunni (WHO) er talið að kvíði og þunglyndi muni vera næsti heimsfarandur en hlutverk stofnuninnar er meðal annars að efla geðvernd á alþjóðlegu sviði. Með auknum kvíða er fyrirséð að draga muni úr lífsgæðum og því mikilvægt fyrir atvinnurekendur að vera meðvitaðir um algengi kvíða og gera kerfisbundnar ráðstafanir til að draga úr honum hjá starfsmönnum sem skilar sér í aukinni framleiðni og færri veikindadögum.

Heimildir:

Árelía Eydís Guðmundsdóttir. (2011). Á réttri hillu. Leiðin til meiri hamingju í lífi og starfi. Reykjavík.Útgefandi – Veröld. Árelía Eydís Guðmundsdóttir. (2005). Móti hækkandi sól. Lærðu að virkja kraft vonar og heppni í lífi þínu. Reykjavik. Útgefandi – Veröld.

Ásta Kristín Gunnarsdóttir (2013). Starfstengd þreyta meðal flugþjónustuliða. Áhrifaþættir þreytu of afleiðingar hennar. Meistararitgerð Háskóli Íslands, Hjúkrunarfræðideild.

Deddens, J.A., Grajewski, B.A., Hurrel,J. J., MacDonald, L.A., og Whelan, E.A. (2003). Job stress among female flight attendants. Journal of Occupational Safety and Health Medicine, 45, 703-714. Lyfjahandbókin. (2018). Lyfja- lifið heil. Sótt 29. Apríl 2018 á https://www.

lyfja.is/lyfjabokin/ Lárus Helgasson. (2005.

Kvíði. Leiðbeiningar fyrir sjúklinga og aðstandendur. Útgefandi: Actavis hf.

Sóley Dröfn Davíðsdótttir.(2014). Náðu tökum á kvíða, fælni og áhyggjum. Reykjavik. Útgefandi – Edda. WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin. Sótt 29. apríl 2018 á


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband