Hvaða þættir hafa áhrif á svefn og svefnvenjur hjá flugfreyjum og- þjónum?

Í febrúar 2016 var gerð könnun meðal flugfreyja og -þjóna á svefnvenjum þeirra. Meginmarkmiðið var að skoða svefn stéttarinnar sem vinnur óreglulega vaktavinnu og skoða hvaða þættir hafa áhrif á gæði hans og lengd. Sífelld röskun á líkamsklukkuninni hefur áhrif á svefninn og getur valdið svefntruflunum auk þess sem mikið vinnuálag hefur neikvæð áhrif á hvíld og svefn.
Slóð inn á könnunina sem samanstóð af 16 spurningum var sett inn á lokaða síðu flugfreyja- og þjóna á Fésbókinni. Um hentugleikaúrtak er því að ræða þar sem fólk fylgist misvel með því sem þar fer fram og ekki eru allir félagsmenn að nota Fésbókina. Alls svöruðu 174 þátttakendur,164 konur og tíu karlar. Notaður var samanburðarhópur sem var fundinn í gegnum Fésbókina alls 355 þátttakendur, þar af tveir karlmenn. Um helmingur samanburðarhóps stundaði dagvinnu og fjórðungur vaktavinnu (dag-, kvöld-, næturvaktir).

Niðurstöður:

Athyglisvert var að sjá hversu langan tíma það tók þátttakendur að sofna en hjá flugfreyjum og þjónum voru svörin afar misjöfn eða allt frá einni mínútu upp í tvær klukkustundir en algengasta svarið var 5-30 mínútur. Það tók samanburðarhóp skemmri tíma að sofna trúlega eiga þátttakendur í þeim hópi ekki við einkenni flugþreytu (jet-lag) og truflun á líkamsklukkunni að stríða eins og flugáhafnir. Sá tími sem tekur einstaklinginn að sofna er oft mælikvarði á ákveðna þætti svo sem hversu tilbúinn viðkomandi er til þess að fara sofa, hvort hann þjáist af flugþreytu (jet lag) eða hversu þreyttur hann er þegar hann leggst til svefns.

Helmingur flugfreyja og -þjóna var sammála fullyrðingunni að þeir hefðu sofnað í starfi án þess að hafa ætlað sér það en í meistararannsókn minni sögðust tæp 17% flugfreyja og -þjóna hafa sofnað á flugi. Það má því velta fyrir sér hvort þátttakendur séu farnir að treysta sér til þess að svara af einlægni viðkvæmri spurningu eða hvort fjöldi þeirra sem hafa sofnað í starfi hefur aukist. Um 31% þátttakenda hjá samanburðarhópi hafði sofnað í starfi án þess að hafa ætlað sér það.
Það sem helst truflar svefn flugfreyja- og þjóna er hræðsla við að sofa yfir sig, þar á eftir kom streita, áhyggjur og kvíði. Í fyrri könnun frá 2013 var líka helsta truflun að sofa yfir sig þá skyldur vegna fjölskyldu svo sem ung börn og rúmfélagi (hrotur). Þar kom líka í ljós að C flugfreyjur og -þjónar voru þreyttastust í morgunflugi sem skýrist líklega af því að sá hópur er með yngstu börnin. Í samanburðarhópnum voru áhyggjur, streita og kvíði helsta truflunin en mun færri í þeim hópi merktu við að vera hrædd um að sofa yfir sig þar sem það breytir trúlega litlu fyrir meirihlutann þó þeim seinki aðeins.
Það vekur athygli að kvíði og líkamlegir verkir voru áberandi meiri hjá samanburðarhópi, sem er umhugsunarefni þar sem stoðkerfisverkir og stoðkerfisvandamál hafa mælst hjá um 70% flugfreyjum og -þjónum. Kvíði mælist hár í okkar samfélagi ef marka má niðurstöður á landsvísu en í þessari könnun kom í ljós að 28% flugfreyja-og- þjóna töldu kvíða hafa áhrif á svefn sinn, en 38% einstaklinga í samanburðarhóp töldu svo vera. Allir finna kvíða einhverntíma á æfinni og telst kvíði eðlileg viðbrögð við álagi og erfiðum aðstæðum. Kvíði getur þó orðið vandamál hjá einstaklingum ef hann er óeðlilega mikill eða kemur upp án röklegs samhengis.

Þegar rýnt er í hvaða aðferðir eru helst notaðar til að sofna á kvöldin (fyrir morgunflug eða vinnu) virðist lyfjanotkun hjá flugfreyjum og -þjónum vera að aukast. Árið 2013 tóku 21% flugfreyja- og þjóna lyfseðilsskyld svefnlyf, 13,5% tóku inn ólyfseðilskyld lyf svo sem verkjatöflur eða ofnæmislyf sem innihalda róandi áhrif og 10% tóku inn hórmónið melatónin.
Í þessari könnun tóku 16% inn lyfseðilsskyld lyf, 14,3% ólyfseðilskyld lyf en 21% hormónið melatónin. Inntaka melatonins er vaxandi og mælist hún helmingi hærri en árið 2013. Þó melatonin sé ekki beint svefnlyf er mikilvægt að það sé tekið notað í réttum skömmtum og á réttum tíma (sjá pistil um melatónin inntöku fyrir flugáhafnir). Notkun svefnlyfja í samanburðarhópnum var helmingi minni en hjá flugfreyjum og –þjónum, nær notkun á landsvísu. Um helmingur flugfreyja og -þjóna nota reglulega eða stöku sinnum einhverskonar lyf til þess að sofna og er líklega algengast að þau séu notuð fyrir morgunflug. Árið 2013 merktu tveir innan flugfreyju- og þjónahópsins við að þeir nýttu sér áfengi til þess að sofna, nú þremur árum seinna ( í þessu þýði) eru sex sem nýta áfengi til slíks.

Flugfreyjur og -þjónar þurfa ávallt að vera vökul í starfi sínu sem öryggisverðir hvenær sem er sólarhringsins svo það kemur ekki á óvart að þau leiti allra leiða til að skila sínu. Mikilvægt er að auka fræðslu til að draga sem mest úr truflun á líkamsklukkunni og að tryggja að ef einstaklingur tekur inn svefnlyf að þau séu tekin inn á réttum tíma og í réttri skammtastærð.

Of lítill nætursvefn og erfileikar með að sofa fyrir morgunflug er þekkt vandamál hjá flugfreyjum og –þjónum. Svefn fyrir morgunflug reyndist vera 5 klst en var 6:45 klukkustundir árið 2013 og virðist því hafa styðst. Svefn samanburðarhóps fyrir sinn vinnudag er talsvert lengri en hjá flugfreyju og -þjónum eða 7 klukkustundir. Flugfreyjur og -þjónar reyna að bæta sér svefntapið upp á frídögum og sofa þá að meðaltali 9,2 klukkustundir eða um rúmri klukkustund lengur en samanburðarhópurinn á sínum frídögum. Báðir hópar töldu sig þurfa um 8 tíma svefn til að vera úthvíld.

Lokaorð:

Svefn flugfreyja og þjóna helst í hendur við vinnutíma þeirra og er stuttur fyrir morgunflug en lengri á frídögum og fyrir síðdegisflug. Til að draga úr þreytu og koma í veg fyrir svefnvandamál er nauðsynlegt að auka fræðslu frá fagfólki og taka meira tillit til líkamsklukku við uppsetningu á vinnuskrám og gera ráð fyrir reglulegri hvíld.
Lyf geta hjálpað verulega til að laga svefnvandamál en hafa þarf í huga að þau eru alltaf tímabundin lausn. Lyfjanotkun stéttarinnar er nokkuð áhyggjuefni þar sem hætta á að ef þau eru tekin inn of seint geti það valdið svefndrunga í starfi auk þess sem sum lyfjanna eru ávanabindandi. Fyrir þá fyrir þá sem eiga erfitt með svefn t.d. fyrir morgunflug hefur hugræn atferlismeðferð (HAM) gefið góða raun og vinnur markvisst að því að uppræta þann vítahring sem fólk getur lent í.

Flugfreyju- og þjóna hópurinn stendur sig frábærlega í starfi hvort sem hann er þreyttur eða óþreyttur en þreytu og svefnleysi ber ávallt að líta alvarlegum augum í eins mikilvægu starfi og flugfreyjur og- þjónar sinna.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband